*

Tölvur & tækni 13. febrúar 2012

Hlutabréf Apple snertu methæðir

Hlutabréfin hafa aldrei verið dýrari og nú. Þau hafa hækkað um 40% á einu ári. Fyrirtækið er það verðmætasta í heimi.

Gengi hlutabréfa í bandaríska tæknifyrirtækinu Apple fór yfir 500 dali á hlut á bandarískum fjármálamörkuðum í dag. Hlutabréf Apple hafa aldrei náð viðlíka hæðum. Fyrir ári síðan stóð gengi hlutabréfa Apple í tæpum 357 dölum á hlut. Gengið hefur því hækkað um 40% á einu ári.

AP-fréttastofan segir í umfjöllun sinni um málið gengi hlutabréfanna hafa tekið á skrið fyrir að verða þremur vikum þegar fyrirtækið birti síðasta uppgjör sitt. Apple hagnaðist um 13,06 milljarða dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra, sem er rúmlega tvöfalt meira en ári fyrr. 

Markaðsverðmæti Apple nemur nú 465 milljörðum dala en það merkir að fyrirtækið er það verðmætasta í heimi. Olíufélagið Exxon Mobil, sem löngum hefur vermt toppsætið, situr nú í öðru sæti. 

Stikkorð: Apple