*

Sport & peningar 11. apríl 2018

Hlutabréf í Roma fara á flug

Bréf félagsins hafa hækkað um 24% frá því að liðið vann óvæntan og dramatískan sigur á Barcelona í meistaradeildinni.

Eftir óvæntan en afar glæstan sigur Roma á Barcelona í meistaradeildinni í gær hefur hlutabréfaverð félagsins tekið stökk. Hlutirnir hafa hækkað um 24% síðan úrslitin urðu ljós að því er Bloomberg greinir frá. 

Afar ólíklegt þótti að Roma tækist að sigra leikinn með nægilegum mun til þess að vinna viðureignina en með marki varnarmannsins Kostas Manolas, sem var þriðja mark liðsins, á 82. mínútu komst Roma í stöðuna 3-0 sem tryggði þeim sigur í viðureigninni. 

Töluverðir fjárhagslegir hagsmunir fylgja því að komast áfram í meistaradeildinni en sæti í undanúrslitum fær liðið að lágmarki 7,5 milljónir evra, eða sem nemur 916 milljónum króna íslenskra, úr vinningspotti UEFA auk annarra tekna af undanúrslitaleikjunum tveimur. 

Veðbankar töldu afar ólíklegt að Roma kæmist áfram í undanúrslitin. SkyBet gaf upp stuðulinn 20/1 á Roma sem þýðir 4,8% sigurlíkur.