*

Hitt og þetta 24. apríl 2006

Hlutafélag um golfvöll

Stjórn golfklúbbsins Bakkakots (GOB) í Mosfellsdal hefur látið framkvæma skoðannakönnun meðal félagsmanna sinn um ágæti þess að breyta félagsforminu yfir í hlutafélag. Það er skoðun stjórnenda félagsins að þetta sé væntanlega öruggasta leiðin til að tryggja fjármagn til framkvæmd við stækkun í 18 holur, sem hafist gætu í haust, ef hugmyndin gengur eftir.

Öllum félagsmönnum GOB var sent bréf þar sem kannað er viðhorf félaga til stofnunar hlutafélags um uppbyggingu og rekstur í Bakkakoti. Um er að ræða óbundna könnun.

Ef væntingar ganga eftir og sýnilegur áhugi reynist vera fyrir stofnun hlutafélags, verður málið kynnt nánar á félagsfundi sem haldinn verður fljótlega. Stofnun hlutafélags mun gera það að verkum að hægt verður að ráðst þegar í skipulagningu og framkvæmdir og mundi flýta fyrir uppbyggingu vallarins í 18 holur með tilheyrandi félagsaðstöðu. Hugmyndin hefur þegar verið borin upp við nokkur fyrirtæki og er verulegur áhugi á að taka þátt í félaginu segir í frétt á heimasíðu þess.

Fyrir síðustu áramót var endanlega gengið frá samningi við Prestsetrasjóð um leigu á 15 hektara spildu úr landi Mosfells. Samningur þessi gefur möguleika á stækkun vallarins úr 9 holum í 18. Svæðið er tilvalið til golfvallargerðar og ætti að vera hagkvæmt í framkvæmd þar sem lítill aðflutningur verður á efni, en það er oft einn stærsti kostnaður við gerð golfvalla. Langur aðdragandi hefur verið að þessum áfanga og voru margir félagar og aðrir ekki bjartsýnir á að hann næðist, en nú er samningurinn í höfn. Verkefni nýrrar stjórnar verður að leita leiða í fjármögnun framkvæmda og endurskipuleggja allt land sem klúbburinn hefur yfir að ráða til að ná sem bestri nýtingu og fjölbreyttni. Vegna gæða landsins á að vera hægt að byggja upp völl þar sem vatn og trjágróður spila stórt hlutverk.