*

Tölvur & tækni 29. febrúar 2012

Hluthafar Facebook orðnir óvenju margir

Margir bíða með eftirvæntingu eftir skráningu Facebook á hlutabréfamarkað. Fyrirtækið er nú þegar metið á 100 milljarða.

Hlutabréf í samfélagsmiðlinum Facebook eru sögð skipta um hendur á gráa markaðnum með slíkum hraða að það getur dregið úr væntum hagnaði hluthafa við skráningu fyrirtækisins við skráningu á markað.

Hluthafar Facebook eru nú orðnir eitt þúsund talsins og er það óvenjulegt. Alla jafna eiga á bilinu 50 til 100 hluthafar í félögum áður en þau eru skráð á markað.

Bloomberg-fréttaveitan bendir á það í umfjöllun sinni um Facebook að hlutabréfin skipti um hendur á allt að 44 dali á hlut og sé verðmæti fyrirtækisins á gráa markaðnum nú komið yfir 100 milljarða Bandaríkjadali. Það er álíka mikið og vonast var til að markaðsverðmæti fyrirtækisins yrði eftir hlutafjárútboð. Til samanburðar stóð gengi hlutabréfa í Facebook í um 30 dölum á hlut í október í fyrra. Hækkunin síðan þá nemur tæpum 50%.

Bloomberg segir marga bíða í ofvæni eftir skráningu Facebook á markað og sé ekki útilokað að gengi verði orðið hærra þá. Verðmiði hefur enn ekki verið settur á gengi hlutabréfa fyrirtækisins í væntu hlutafjárútboði.

Stikkorð: Facebook  • Mark Zuckerberg