*

Ferðalög & útivist 3. apríl 2019

Hlutir sem forðast skal á Íslandi

Bloomberg hefur birt lista yfir hluti til að forðast sem ferðamaður á Íslandi, ásamt uppástungu að öðru í staðinn.

2,3 milljónir ferðamanna lögðu leið sína til Íslands á síðasta ári, og þó því sé spáð að sú tala kunni að lækka í um 2 milljónir á þessu ári, eru það ansi margar ferðir um gullna hringinn og í Bláa Lónið.

En landið hefur upp á ýmislegt fleira að bjóða en vinsælustu ferðamannastaðina. Fréttaveitan Bloomberg hefur tekið saman lista yfir 9 hluti sem ferðamenn ættu ekki að gera á Íslandi, og stungið upp á öðru í staðinn fyrir hvern hlut á listanum, að sjálfsögðu.

Heimamenn í stað landslags
Hér er vísað í orð Gunnars Gunnarssonar atvinnuljósmyndara, sem rekur sprengingu landsins á Instagram, úr 800 þúsund myndum með myllumerkinu Iceland í 12 milljónir á fjórum árum. Hann segir félitla ferðaþjónustuaðila og áhrifavalda á höttunum eftir ókeypis vörum og þjónustu hafa myndað bergmálshelli áfangastaða sem allir „verði" að heimsækja.

Fréttaveitan bendir á að sérstæð og áhugaverð menning Íslendinga verði útundan í slíkum helli, en gefi fjörðunum ekkert eftir í eftirminnileika.

Lítil fyrirtæki í stað alþjóðlegra risa
Lítil íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru sögð bjóða upp á hágæðaþjónustu, og vera mjög aðgengileg á netinu, þótt þurfa kunni að fara á aðra eða þriðju leitarniðurstöðusíðu á Google.

Tekið er dæmi af Midgard Adventure á Hvolsvelli, sem bjóði upp á jeppaferðir að skoða gljúfur og jökla, og geti jafnvel endað með matarboði í kjötsúpu heima hjá leiðsögumanninum.

Suðurland í stað Reykjavíkur
Bent er á að þótt svo til allt millilandaflug sé um Keflavík, í nágrenni við höfuðborgina, sé hún lítil á alþjóðlegan mælikvarða, og mælt með því að lágmarka heimsóknartímann þar, eða jafnvel sleppa henni alfarið.

Betri kostur sé að gista á Suðurlandi: þar sé maður nær flestum áfangastöðum eins og Sólheimajökli og Jökulsárlóni, og geti auk þess sleppt því að bóka norðurljósa-skoðunarferð. Einfaldlega megi líta út um gluggann.

Út að borða úti á landi í stað höfuðborgarinnar
Austurland er nefnt sérstaklega sem mikill vaxtarbroddur íslenskrar matargerðar. Sem dæmi sé Kári Þorsteinsson, yfirkokkur á Dill, fyrsta íslenska veitingastaðnum til að hljóta Michelin-stjörnu, í þann mund að opna veitingastað á Egilsstöðum.

Hvaða foss sem er í stað Gullfoss
Gullfoss er nefndur sem skólabókardæmi um bergmálshellisáhrifin sem nefnd voru í upphafi. Allir taki snapp af sér með fossinn í bakgrunni. Landið búi hinsvegar yfir 10 þúsund fossum, og mælt er sérstaklega með Dynjanda eða Aldeyjarfossi í staðinn.

Athvarfið í stað Bláa Lónsins
Vinsældir lónsins eru óumdeildar, og í raun sagðar staðfestar af opnun sambærilegra baðstaða eins og Fontana og Leynilóninu (Secret Lagoon).

Vilji lesandinn endilega fara í Bláa Lónið er honum bent á lúxushótelið The Retreat, eða Athvarfið, sem opnaði nýlega á svæðinu. Þannig megi sleppa við fjöldann, og hótelið sé auk þess eina alvöru fimm stjörnu hótelið á landinu.

Inn á land í stað flugvallargistingar
Með hjálp innanlandsflugs er engin þörf á að takmarka stuttar heimsóknir við Reykjanesskagann, segir Bloomberg. Flug til hins afskekkta norðausturhorns taki aðeins 45 mínútur.

Á einni helgi megi fara frá Akureyri, skoða furðulegt landslag við Mývatn, og fara í hvalaskoðun á Húsavík.

Vestfirðir í stað hringvegarins
Hringvegurinn er sögð vinsælasta ökuleið ferðamanna að miklu leyti vegna þess að hann er vel malbikaður og myndar hentugan hring um allt landið.

Vesturhringurinn, eins og Bloomberg kýs að kalla hann (e. The Western Loop), liggur frá Reykjavík og til Stykkishólms, með Baldri yfir á Vestfirði og umhverfis þá og til baka gegnum Búðardal, með viðkomu á Reykholti áður en haldið er til Reykjavíkur.

Vetur í stað sumars
Einfaldasta og augljósasta leiðin til að forðast mannmergðina er vitanlega að heimsækja landið utan háannatíma. Sagt er frá því að jafnvel útjaðrar sumarsins á vorin og haustin séu farnir að bókast upp.

Rólegasti mánuður ársins, nóvember, er því sagður ákjósanlegur kostur. Lesendum er sagt að vera ekki of uppteknir af veðrinu; jafnvel á sumrin sé engin trygging fyrir góðu veðri. Fyrst ekki sé hægt að tryggja sér góðviðrið er haft eftir Gunnari Gunnarssyni að betra sé að tryggja sér þess í stað góða lýsingu, en ákveðinn gullbjarmi einkenni vetrarmánuðina, sem sé upplagður fyrir myndatökur.