*

Veiði 13. maí 2018

HM hefur áhrif á veiðileyfasölu

Umsjónarmaður Norðurár segir HM hafa áhrif á sölu veiðileyfa. Eigandi Lax-á segir íslenska markaðinn eins og eyðimörk.

Trausti Hafliðason

Einar Sigfússon, sem hefur séð um sölu veiðileyfa í Norðurá frá árinu 2014, segir að veiðin hefjist 4. júní. Stangaveiðifélag Reykjavíkur var með Norðurá á leigu í áratugi og þá myndaðist sú hefð að bjóða fjölmiðlum að fylgjast með upphafi veiðinnar.

Einar hefur haldið þessum sið og árlega fengið þjóðþekkta einstaklinga til að opna ána. Árið 2014 voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson fengnir til að opna. Árið 2015 opnuðu Bubbi Morthens og Björgvin Halldórsson ána og árið 2016 óperusöngvararnir Kristinn Sigmundsson og Kristján Jóhannsson. Í fyrra reið knattspyrnumaðurinn Gylfi Sigurðsson á vaðið.

Einar segist vera búinn að ákveða hverjir opni að þessu sinni. „En ég ætla ekki að birta nöfnin alveg strax,“ segir hann. Einar segist hafa góða tilfinningu fyrir laxveiðisumrinu.

„Við erum búin að hafa tvö góð vor í röð sem ætti að þýða að við ættum hafa nokkuð sterkar göngur af bæði stórlaxi og smálaxi. Ég er sannfærður um að sumarið verið mjög gott.“ Síðasta sumar einkenndist af miklu vatnsleysi í ám á Vesturlandi og reyndar víðar.

Einar segir að nú sé mikill snjór á Holtavörðuheiðinni og svo lengi sem veðrið fari hægt hlýnandi sé hann bjartsýnn á að vatnsstaðan verði góð í sumar. Hann segir að sala veiðileyfa hafi gengið ágætlega. Vegna styrkingar krónunnar sé erlendi markaðurinn samt mjög erfiður. Sá innlendi er það reyndar líka.

„Þetta hefur verið svolítið sérstakt því það ar augljóst að HM í fótbolta hefur mikil áhrif. Ég held að allir veiðileyfasalar finni fyrir því.“ Einar útilokar ekki að þegar Ísland er að spila þá verði veiðitímanum hnikað til svo veiðimenn geti fylgst með leikjunum. „Það er ekkert ólíklegt að svo verði.“

Íslenski markaðurinn eins og eyðimörk

Veiði hefst í Blöndu 5. júní. Árni Baldursson, eigandi Lax-á, sem hefur verið með Blöndu á leigu um langt árabil, er líkt og Einar bjartsýnn á að laxveiðin verði góð í sumar.

„Veðrið síðasta vor var mjög gott og allar aðstæður fyrir útgöngu seiða hinar ákjósanlegustu.“ Árni tekur undir með Einari að íslenski veiðileyfamarkaðurinn sé svolítið skrítinn. „Okkur gengur vel að selja útlendingum leyfi en íslenski markaðurinn er eyðimörk, það er ekkert að gerast,“ segir Árni. „Ég veit ekki hvað er í gangi hjá Íslendingum, kannski er HM að hafa einhver áhrif, ég veit það ekki. Það virðist allavega vera lítill áhugi hjá Íslendingum sem stendur og miklu minni en í fyrra. Kannski fer þetta allt í gang þegar laxinn byrjar að ganga. Vonandi.“ 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.