*

Tíska og hönnun 14. júlí 2017

H&M í samstarf við Erdem

H&M hefur komið á þeirri árlegu hefð að vinna með þekktum hönnuðum og tískuhúsum. Að þessu sinni var það tískuhúsið Erdem sem varð fyrir valinu.

Verslunarkeðjan H&M tilkynnti með birtingu myndbands á Instagram samstarf sitt við tískuhúsið Erdem. Myndbandið var tekið af leikstjóranum Baz Luhrmann.

Samkvæmt tilkynningu sænsku verslunarkeðjunnar er fatalínan væntanleg í verslanir þann 2. nóvember 2017. Fróðlegt verður að sjá hvort línan rati í verslanir hér á landi. 

Erdem Moralioglu, hönnuðurinn sjálfur segir samstarfið mikinn heiður. Hann er þekktur fyrir fágaðar flíkur þar sem prent, blómamynstur og rómantík ræður ríkjum. Tískuunnendur bíða því spenntir eftir útkomunni. 

Áður hafa hönnuðir á borð við Karl Lagerfeld, Marni, Maison Margiela, Versace, Isabel Marant, Lanvin, Kenzo og fleiri átt góðu samstarfi að fagna með keðjunni. 
Hægt er að horfa á myndbandið hér: https://www.youtube.com/watch?v=hgd9ox_AM5A