*

Hitt og þetta 26. september 2013

Hnífapör sem gera fyrsta stefnumótið minna vandræðalegt

Allt getur hjálpað á fyrsta stefnumótinu, meira að segja hnífapörin.

Sumir kvíða fyrsta stefnumótinu eins og dauðanum. En það eru til ráð til að gera þetta aðeins bærilegra. Til dæmis að velja flippuð hnífapör.

Hönnuðurinn Christina Guardiola hefur hannað „First Date Cutlery“ sem eiga að koma fólki klakklaust í gegnum fyrsta stefnumótið.

Fyrir það fyrsta þá eru þau bara svo fyndin og hress að það má ræða útlit þeirra og lögun og brjóta þannig ísinn áður en farið er út í persónulegri sálma eins og fyrrverandi sambönd og hvort einhver við borðið sé á sakaskrá.

Síðan er lögun og hönnun hnífaparanna þannig að það er nær ómögulegt að sulla niður á sig. Súpuskeiðin er þannig í laginu að það er erfitt að búa til hvimleiða slafurhljóðið. 

Í hnífnum og gafflinum eru litlir seglar sem gera það að verkum að þeir festast saman þegar þeir eru lagðir niður á diskinn. Þetta minnir fólk á að gúffa ekki bara í sig heldur taka elegant pásur í miðri máltíð og kjafta og vera huggulegt. Þá aukast líkurnar á því að fólk verði ástfangið. Eðlilega. 

Gizmodo.com segir frá þessu merkilega máli á vefsíðu sinni hér

 

 

Stikkorð: Hönnun  • Örvænting  • Vandræðalegt  • Stefnumót