*

Veiði 8. júlí 2018

Hnúðlaxasumar

Aldrei hafa fleiri hnúðlaxar verið skráðir í veiðibækur en í fyrra eða alls 54.

Trausti Hafliðason

Aldrei hafa fleiri hnúðlaxar verið skráðir í veiðibækur en í fyrra eða alls 54. Hnúðlaxar veiddust í öllum landshlutum en langflestir voru skráðir á Austurlandi eða 23. Næstflestir voru skráðir á Norðurlandi eystra eða 11. Á Suðurlandi voru 8 hnúðlaxar skráðir, 5 á Norðurlandi vestra, 5 á Vesturlandi, einn á Vestfjörðum og sömuleiðis einn á Reykjanesi.

Hnúðlaxinn, sem er af ætt Kyrrahafslaxa, var fluttur til Kólaskaga í Rússlandi til hafbeitar um miðja síðustu öld. Síðan þá hefur hann smám saman verið að breiðast út í ám á Kólaskaga og hrygnir einnig í ám norðarlega í Noregi. Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að hnúðlaxar hafi veiðst í íslenskum ám í tæplega sextíu ár. Hann segir að fyrir árið í fyrra hafi mest 12 hnúðlaxar verið skráðir í veiðibækur á einu ári. Hann segir að þótt 54 hnúðlaxar hafi verið skráðir í fyrra viti hann að fleiri hafi veiðst, þar sem sumir sleppi því að skrá þessa laxa í bækur. Hann segir að í fyrsta skiptið sé vitað af hrygningu hnúðlaxa í íslenskum ám. Hnúðlax hrygndi í Soginu á Suðurlandi og Mjólká á Vestfjörðum. Guðni segir óvíst hvaða áhrif þessi innrás hnúðlaxanna muni hafa á íslensku stofnana en mjög mikilvægt sé að fylgjast vel með þróuninni. Hvetur hann veiðimenn, sem landa hnúðlaxi, að skrá veiðina í bækur eða koma upplýsingum á framfæri til Hafrannsóknastofnunar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Veiði  • lax  • silungur  • Hafró