*

Hitt og þetta 20. nóvember 2005

Höfðingleg gjöf til íþróttamála

Samvinnufélag útgerðamanna Neskaupstað hefur ákveðið að kosta gervigras og girðingu á nýjan knattspyrnuvöll í Neskaupstað. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um uppbyggingu framtíðaraðstöðu knattspyrnunnar í Neskaupstað en þær tóku nýja stefnu þegar Síldarvinnslan ákvað stækkun frystigeymslu sinnar sem útheimt land núverandi knattspyrnuvallar.

Bæjarstjórn hafði fyrir nokkru samþykkt að nýjan völl skyldi byggja upp á gamla malarvellinum sem er í hjarta bæjarins vestan Verkmenntaskóla Austurlands. Kemur framlag Samvinnufélagsins bæjarfélaginu einstaklega vel og er því ómetanlegur bakhjarl í eflingu og uppbyggingu íþróttastarfs segir í frétt á heimasíðu Fjarðarbyggðar. Með þessu móti verður mun auðveldara fyrir yngri iðkendur að komast á æfingar og mót en gamli völlurinn var í útjaðri bæjarins. Áætlað er að lagning gervigrasvallarins kosti 20 milljónir króna.