*

Menning & listir 13. ágúst 2012

Höfundur Hungurleikanna klífur tekjulista Forbes

Karlar hafa oftast leitt hóp tekjuhæstu rithöfunda en það er nú að breytast. Evanovich fylgir nú fast á hæla King og Patterson.

Ýmsar stórstjörnur úr heimi rithöfunda mega fara að vara sig á fjölda kvenna sem smám saman klífa lista Forbes yfir tekjuhæstu rithöfunda heims. Meðal þessara svokölluðu stórstjarna eru þeir James Patterson og Stephen King sem skipa fyrsta og annað sæti listans. Hinn fyrrnefndi þénar 94 milljónir bandaríkjadala og spennusögukóngurinn King 39 milljónir.

Karlmenn hafa löngum verið ráðandi í hópi tekjuhæstu rithöfunda en nú virðist ætla að verða breyting á. Fjöldi kvenna á listanum fer vaxandi og hafa margar þeirra klifið tekjulistann hratt. 

Í þriðja sæti listans er Janet Evanovich sem helst er þekkt sem höfundur bóka um Stephanie Plum en átján rómantískar spennusögur hafa þegar verið gefnar út um hana og er sú nítjánda væntanleg á árinu. Tekjur Janet voru 33 milljónir bandaríkjadala á árinu. Í sjöunda sæti er Nora Roberts og voru árstekjur hennar 23 milljónir. Roberts hefur skrifað yfir 200 rómantískar skáldsögur. Fast á hæla hennar fylgir Danielle Steel með svipaðar tekjur. Enginn rithöfundur hefur prýtt lista Forbes eins oft og hún.

Nýjasta stjarnan á listanum er Suzanne Collins, höfundur bókanna um Hungurleikana. Tekjur hennar þetta árið voru um 20 milljónir bandaríkjadala og benda fréttamenn Forbes á að þær eigi að öllum líkindum eftir að ná enn hærra á næsta ári þar sem sala bókanna í kjölfar samnefndrar kvikmyndar nái ekki inn á lista ársins 2011. Suzanne skýtur þó meira að segja J.K. Rowling ref fyrir rass en árstekjur þeirrar síðarnefndu eru um 17 milljónir bandaríkjadala. Það er aðeins meira en Twilight rithöfundurinn Stephenie Myer sem þénaði 14 milljónir.

Af fimmtán tekjuhæstu rithöfundunum eru nú 6 konur og mun þeim áfram fjölga hratt ef þróunin heldur áfram í sama takti.

Áhugasamir geta séð meira um þennan ágæta rithöfundahóp hér.

Stikkorð: Forbes  • Rithöfundar