*

Hitt og þetta 30. október 2019

Höllin fór á miklum afslætti

Húsnæði sem inniheldur meðal annars 21 baðherbergi, lúxusbíla að andvirði 30 milljónir dollara var selt á 62% afslætti undir ásettu verði.

Lúxushúsnæði sem sem fyrir tveimur árum var dýrasta íbúðarhúsnæði í sögu Bandaríkjanna þegar það var sett á markað hefur nú loks verið selt með 62% afslætti samkvæmt frétt Wall Street Journal. Húsnæðið sem staðsett er í Bel-Air hverfinu í Los Angeles, er ríflega 3.500 fermetrar að stærð var upprunalega með verðmiða upp á 250 milljónir dollara en endanlegt söluverð nam hins vegar „einungis“ 94 milljónum dollara. 

Húsnæðið, sem ber nafnið „Billionaire“ var byggt af bandaríska athafnamanninum Bruce Makowsky sem fjármagnaði framkvæmdirnar alfarið með eigin fjármunum en hann, ásamt eiginkonu sinni, Kathy Van Zeeland, efnaðist umtalsvert á eftir að hafa selt fyrirtæki sitt í handtösku- og skógeiranum árið 2008. 

Óhætt er að segja að engu hafi verið tilsparað við bygginguna en innanstokksmunir húsnæðisins koma að mestu leyti frá hönnuðum á borð við Fendi, Roberto Cavalli og Louis Vuitton. Þá kom fram í auglýsingu fyrir húsnæðið að með því fylgdi lúxusbifreiðar og mótorhjól að andvirði um 30 milljóna dollara. 

Í húsinu eru 12 svefnherbergi og 21 baðherbergi, þrjú eldhús, fimm barir, tveir vínkjallarar, keilusalur með fjórum brautum, þyrlupallur, líkamsrækt, spa, leikjasalur, bíósalur með James Bond þema auk þess sem sem sundlaugin er 25 metra löng. Þá eru lyfturnar í húsinu klæddar með krókódílaskinni. 

Makowski keypti lóðina undir húsið árið 2013 fyrir 11 milljónir dollara og reif húsnæðið sem þar stóð áður. Í viðtali árið 2017 réttlætti Makowsky uppbygginguna með því að segja að það væri lítið vit í þeim sem fjárfesta í lúxussnekkju fyrir 250 milljónir dollara sem þeir eyða í besta falli um 6-8 vikum á ári á meðan þeir búi í húsnæði sem kosti á bilinu 30 – 40 milljónir dollara.

Að mati Wall Street Jorunal þykir salan vera til marks um þær breytingar sem eru að eiga sér stað á markaðnum með lúxushúsnæði í Los Angeles. Húsið fór á markað í kjölfarið á að þó nokkrar eignir höfðu verið seldar á yfir 100 milljónir dollara auk þess sem nokkur sölumet höfðu verið sett. Nú rúmum tveimur árum seinna hefur verð á lúxuseignum lækkað vegna offramboðs á eignum í þessum ofur lúxusflokki. 

Þá er þetta ekki eina ofur lúxuseignin á Los Angeles svæðinu sem hefur verið seld nýlega með miklum afslætti en Petra Ecclestone, dóttir stofnanda Formúlu 1, Bernie Ecclestone, seldi nýlega húsnæði sitt í Holmby Hills fyrir 120 milljónir dollara. Þegar sú eign var sett á markað var ásett verð 200 milljónir dollara og fór húsnæði Formúluerfingjans því á 40% afslætti.