*

Menning & listir 9. mars 2021

Hollywood „bjargvættur“ Húsavíkur?

Financial Times bendir á þau tækifæri sem Óskarsverðlaun gætu haft í för með sér fyrir Húsavík.

Í frétt Financial Times er því velt upp hvort „bjargvættur“ Húsavíkur komi úr ólíklegri átt og verði enginn annar en kvikmyndaiðnaðurinn í Hollywood. Í fréttinni er bent á að bærinn hafi komið illa út úr heimsfaraldrinum, enda var um þriðjungur starfa í bænum beintengd ferðaþjónustu áður en faraldurinn skall á. Óskarsverðlaun geti því reynst dýrmæt kynning fyrir bæinn á alþjóðavísu. 

Húsavík á nefnilega möguleika á hinum virtu Óskarsverðlaunum, þó að tæknilega séð sé það ekki bærinn sjálfur sem er tilnefndur, heldur lag sem nefnt er í höfuðið á bænum. Lagið er að finna í gamanmynd Will Ferrell um Eurovision söngvakeppnina, en hluti myndarinnar á sér stað í Húsavík. 

Íbúar Húsavíkur hafi þegar sett af stað herferðina „An Óskar for Húsavík“ þar sem Óskar nokkur, sem kveðst vera sá eini í bænum sem ber það nafn, kallar eftir því að fá loks nafna til Húsavíkur.

Lagið er á meðal 15 laga sem eiga möguleika á að hreppa verðlaunin eftirsóttu og samkvæmt FT þykir lagið um Húsavík líklegt til að vera meðal þeirra fimm sem tilnefnd verða til Óskarsverðlauna. Greint verður frá því í næstu viku hvaða fimm lög hljóta tilnefningu. 

Bendir FT á að fari svo að lagið um Húsavík beri sigur úr bítum og hreppi Óskarsverðlaun, muni það þýða að lag sem lofsyngur bæinn verði flutt á Óskarsverðlaunahátíðinni fyrir augum hundruð milljóna áhorfenda. Með tilheyrandi tækifærum.     

Stikkorð: Óskarsverðlaun  • Húsavík  • Eurovision