*

Menning & listir 5. nóvember 2015

Hollywood, Hafmeyjan og heimsfrægð Nínu Sæmundsson

Fjallað er um ævintýralegt lífshlaup listakonunnar Nínu Sæmundsson í nýrri bók frá Crymogeu eftir Hrafnhildi Schram.

Ásta Andrésdóttir

Um 1930 var Nína Sæmundsson þekktasti myndlistarmaður Íslendinga á alþjóðavettvangi. Hún hafði numið og starfað í Kaupmannahöfn, Róm, París og New York. Verk hennar höfðu verið sýnd og hlotið viðurkenningar í Danmörku, Frakklandi og Bandaríkjunum og heima á Íslandi var styttan Móðurást fyrsta höggmynd konu sem sett var upp á almannafæri.

Crymogea hefur nú gefið út yfirgripsmikla bók eftir Hrafnhildi Schram um lífshlaup og feril Nínu. 

Lengst af ævi sinni bjó Nína og starfaði í Bandaríkjunum, fyrst í New York og síðan í Los Angeles. Þar tengdist hún skemmtanaiðnaði Hollywood, vann við kvikmyndir og gerði höggmyndir af dívum og gyðjum hvíta tjaldsins. 

Verk Nínu mótuðust í upphafi af nýklassísku stefnunni sem var ráðandi í höggmyndagerð og arkitektúr á Norðurlöndum á upphafsáratugum 20. aldar. Dvöl hennar á Ítalíu og í Frakklandi styrkti enn tök hennar á klassískri formmótun, en eftir að hún kom til Bandaríkjanna þróuðust verk hennar í átt að art deco-stíl. Hennar þekktasta verk á alþjóðavísu, Afrekshugur, sem trónir ofan við inngang Waldorf Astoria hótelsins á Manhattan er til að mynda eitt af lykilverkum New York í art deco-stíl. Á þeim tuttugu árum sem Nína bjó í Los Angeles varð hún fyrir miklum áhrifum frá tré- og steinskurði frumþjóða Kyrrahafseyja og Norður-Ameríku. Flest fígúratíf verk hennar frá lokaskeiði ferils hennar markast af þessum áhrifum, sem og meðvitaðri vinnu með náttúruleg form steins og viðar. 

Þegar Nína sneri aftur til Íslands á sjötta áratugnum, eftir meira en fjörutíu ára búsetu erlendis, var henni fálega tekið. Það var erfitt að skipa henni á bekk í hugmyndafræðilegum átökum tímans og þegar sá fáheyrði atburður gerðist að verk hennar, Hafmeyjan, var sprengt í loft upp á nýársnótt 1960, eftir að hafa verið uppi í aðeins nokkra mánuði, sagði Nína að „eitthvað hefði dáið“ innra með henni. Nína dró sig í hlé og lést í Reykjavík úr krabbameini árið 1965.