
Honda mun kynna jepplinginn vinsæla CR-V í Hybrid útfærslu á bílasýningunni í Frankfurt síðar í mánuðinum. Þetta er í fyrsta skipti sem Honda prófar Hybrid tvinnvél í jeppling en fólksbíllinn Honda Accord hefur m.a. verið framleiddur í Hybrid útgáfu.
CR-V jepplingurinn verður í boði bæði með 2 lítra tvinnvél sem samanstendur af tveimur rafmótorum og bensínvél. Stærri bensínvélin skilar samtals 145 hestöflum og 175 Nm í togi en samanlagt með rafmótorunum skilar tvinnvélin 215 hestöflum. Þá verður einnig hægt að fá jepplinginn með minni 1,5 lítra tvinnvél.
Bíllinn verður með þrjú aksturskerfi; EV Drive, Hybrid Drive og Engine Drive. Í EV Drive ekur bíllinn eingungis á rafmagninu en í hinum tveimur síðarnefndu kemur bensínvélin einnig til sögunnar. Bíllinn er væntanlegur á markað á næsta ári. Honda hefur tilkynnt að CR-V verði ekki lengur framleiddur með dísilvélum fyrir Evrópumarkað.