*

Bílar 17. apríl 2021

Honda e sker sig úr fjöldanum

Smábíllinn Honda e hefur vakið athygli enda sker hann sig talsvert frá öðrum bílum hvað varðar útlit og hönnun.

Róbert Róbertsson

Honda e var fyrst kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Frankfurt haustið 2017 og þá undir nafninu Urban EV. Hann fékk þá strax mikla athygli sýningargesta enda þótti hann skera sig úr í hönnun. Makoto Iwaki, aðalhönnuður Honda, sagði við það tækifæri að markmiðið væri að láta bílinn líta út fyrir að vera „skemmtilegan í akstri og aðgengilegan“.

Bíllinn var síðan frumsýndur í Frankfurt haustið 2019 og þá var hann kominn á framleiðslustig og með nafnið Honda e. Með útliti bílsins er Honda að sækja í eigin hönnun frá áttunda áratug síðustu aldar. Ljósin að framan og aftan vekja athygli sem og heildarútlit bílsins sem er öðruvísi en á nokkrum öðrum bíl á götunni. En Honda e er ekki bara fyrir augað heldur er hann einnig mjög skemmtilegur í akstri.

Góð fjöðrun og lágur þyngdarpunktur
Bíllinn er ótrúlega lipur og auðvelt að leggja honum í stæði og taka á honum alls kyns snúninga. Sem dæmi er beygjuhringurinn aðeins 4,3 metrar. Það er fínasta afl í þessum netta og létta bíl og hann er kvikur og skemmtilegur. Tveggja arma stýrið er mjög þægilegt og stýringin góð. Bíllinn liggur ágætlega þótt hann sé frekar léttur.

Góð fjöðrun og lágur þyngdarpunktur hjálpa til við að skila bílnum góðum aksturseiginleikum sem og að hann er auk þess afturdrifinn. Útsýnið er furðugott úr bílnum þótt setið sé lágt. Mér finnst eins og ég sé að aka Mini í Italian Job. Ég held að ég gæti gert það sama í Honda e og Charlie Croker og félagar gátu á Mini í þeirri klassísku bílamynd með Michael Caine og endurgerðinni síðar með Mark Wahlberg og fleiri góðum leikurum.

Upplýsingaskjáirnir eru mjög áberandi í innanrýminu fyrir framan ökumann og þeir teygja úr sér svo um munar. Stafræna mælaborðið í fullri breidd heldur ökumanni vel upplýstum.

Sprett úr spori
Rafhlaðan er 35,5 kWst og skilar 154 hestöflum og hann rýkur áfram. Hámarkstogið er 315 Nm. Hvort tveggja pryðilegt fyrir svo nettan bíl. Hann er 8,3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraðinn er 145 km/klst. Ef vilji er fyrir hendi að spretta úr spori er valin Sport stilling sem skilar auknum afköstum með meiri hröðun.

Þessu til viðbótar má hraða bílnum eða hægja á honum með Single Pedal stýringunni og er þá einungis notað eitt ástig. Akstursdrægni Honda e er allt að 220 km sem er alveg þokkalegt en mætti að ósekju vera meira.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Honda  • e