*

Matur og vín 18. desember 2020

Hönnun íslenskrar ginflösku verðlaunuð

Hönnun Ólafsson flöskunnar fær alþjóðleg gullverðlaun fagmiðils um spírageirann. Áður fengið tvenn verðlaun í bragðprófunum.

Íslenska ginið Ólafsson fékk gullverðlaun í árlegri hönnunar- og umbúðaúttekt fagmiðilsins SpiritsBusiness. Niðurstöðurnar eru birtar í desembertölublaði og vef útgáfunnar. Ólafsson heitir í höfuðið á 18. aldar skáldinu og náttúrufræðingnum Eggerti Ólafssyni en teikning af honum ásamt myndum úr náttúru Íslands eru í aðalhlutverki á merkingum  á flösku ginsins.

Frá því Ólafsson kom á markað í mars hefur það fengið tvenn gullverðlaun í virtum alþjóðlegum bragðprófunum. Eins og Eftir vinnu Viðskiptablaðsins sagði frá var ginið jafnframt valið í hóp 34 gina sem fagnað var í myndbandi þekktrar gináhugasíðu á alþjóðlegum degi tileinkuðum áfenginu.

Í júlí hlaut ginið gullverðlaun í stærstu gin blindsmökkunarkeppni heims, sem fagmiðillinn SpiritsBusiness stendur fyrir og í ágúst fékk það gullverðlaun í The International Wine and Spirit Competition (IWSC), einni elstu og virtustu vín- og áfengisbragðprófun heims.

Viðtökur hér á landi hafa verið framar vonum segir Arnar Jón Agnarsson, framkvæmdastjóri Eylands Spirits, framleiðanda Ólafsson.

„Þetta hefur í raun verið með nokkrum ólíkindum. Venjulega eru nýjar vörur teknar til reynslu í tólf mánuði í Vínbúðunum og eru á þeim tíma aðeins fáanlegar í fjórum útibúum,“ segir Arnar.

„Eftirspurnin var hins vegar þannig að Ólafsson var fært í svokallaðan kjarnasöluflokk í ágúst og fæst því á öllum 56 sölustöðum Vínbúðanna á landi. Og Ólafsson var fimmta mest selda ginflaskan í ÁTVR í nóvember.“

Íslenskar jurtir og vatn eru uppistaðan í Ólafsson en fjármagnið og hugvitið að baki gininu er alþjóðlegt.

„Ginið er framleitt hér en við fengum enskan gingúru í lið með okkur við að þróa uppskriftina eftir ákveðnum óskum og út frá völdum íslenskum jurtum. Hann hitti beint í mark,“ segir Arnar.

Flaskan og merkingar á henni voru hannaðar hjá bandaríska fyrirtækinu The Rooster Factory, sem sérhæfir sig í umbúðahönnun fyrir áfengi og er staðsett í Pasadena í Kaliforníu.