*

Menning & listir 14. mars 2013

Halla: Hönnunarmars orðinn sjálfsagður hluti af dagatalinu

Hönnunarmars byrjar í dag og stendur til 17. mars. Á milli 300 til 400 hönnuðir taka þátt í hátíðinni í ár.

"Flestir staðir eru frekar miðsvæðis þannig að það er auðvelt að fara á milli og sjá margt. Undanfarin tvö ár sjáum við líka að erlendir hönnuðir eru farnir að sýna hátíðinni áhuga, koma hingað, kynna sig og taka þátt í verkefnum með íslenskum hönnuðum," segir Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands en Hönnunarmars byrjar í dag og stendur yfir helgina.

Í ár eru yfir 100 viðburðir á 60 stöðum þannig að hátíðin er mjög umfangsmikil að sögn Helgu: "Þátttakendur og við skipuleggjendur erum að verða flinkari í því að halda þessa hátíð og hún er orðin sjálfsagður hluti af dagatalinu. Við vitum nú þegar um viðburði sem verið er að skipuleggja fyrir hátíðina 2014 og jafnvel 2015, það er mikil breyting. Að sjálfsögðu tekur tíma að kynna og þróa svona verkefni og sem betur fer finnum við mikinn mun á milli ára. Þetta er í fimmta sinn sem við höldum HönnunarMars og verkefnið hefur vaxið hratt og örugglega undanfarin ár."

Halla segir að á Hönnunarmars vinni hönnuðir að ólíkum markmiðum, kynni vörur sínar og þjónustu fyrir Íslendingum og erlendum gestum, þrói hugmyndir og efli tengslanet innbyrðis og út á við: "Hönnunarmars er allt í senn fagleg uppskeruhátíð hönnuða, stórt kynningarverkefni á sviðinu, viðskiptastefnumót og ánægjuleg hátíð í borg."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: HönnunarMars  • Hönnunarmars