*

Menning & listir 13. apríl 2018

Hótelhurð Bob Dylan á 100 þúsund dali

Uppboð á hurðum úr hinu sögufræga Chelsea hóteli í New York þar sem hinir frægu vöndu komur sínar skilaði milljónum.

Eftir að fyrrum íbúi bjargaði 50 hurðum úr Chelsea hótelinu í New York þegar endurbætur hófust þar árið 2017 hafa þær nú selst á þúsundir dala á uppboði. Seldist hurð að herbergi sem Bob Dylan notaði á 100 þúsund dali, eða sem nemur 9,9 milljónum íslenskra króna.

Íbúinn, Jim Georgiou, sá að verið var að henda hurðunum og ákvað að bjarga þeim en hótelið hætti að taka við gestum árið 2011, þó hópur fólks haldi áfram að búa í langtímaíbúðum í því meðan endurnýjun þess er í gangi. Hótelið, sem byggt var árið 1880 er sögufrægt en þangað vöndu fjölmargir listamenn, söngvarar, rithöfundar og aðrir bóhemar komur sínar.

Þar gistu til að mynda stjörnur eins og Janis Joplin og Leonard Cohen þegar þau stóðu í framhjáhaldi, sem og Joni Mictchell. Hurðirnar að herbergjunum sem þau gistu í seldust á 85 þúsund dali hver. Það gerir tæplega 8,4 milljónir.

Hurð að herbergi sem listamaðurinn Andy Warhol og leikkonan Edie Sedgwick notuðu seldist fyrir 52.500 dali, eða sem samsvarar tæplega 5,2 milljónum króna. Hurð að herberginu sem rithöfundurinn Jack Kerouac notaði þegar hann skrifaði bók sína On the Road á 6. áratugnum seldist á 30 þúsund dali.

Einnig gistu á hótelinu rithöfundarnir Mark Twain og Tom Wolfe og vísindaskáldsagnahöfundurinn Arthur C. Clarke skrifaði handritið að 2001: A Space Odyssey þegar hann var staddur þar.

Sid Vicious ákærður vegna morðs í hótelinu

Alræmdasta atvikið sem átti sér stað á hótelinu varð hins vegar árið 1978 þegar Sid Vicious úr pönkbandinu Sex Pistols var ásakaður um morð eftir að Nancy Spungen fannst stungin á hol í herbergi sem þau deildu á hótelinu. Vicious lést úr ofneyslu fíkniefna áður en hægt var að rétta í málinu.

Aðrar dyr sem nefndar eru í grein BBC um málið eru að herbergi Edie Sedgwick, en þar tók listamaðurinn Andy Warhol upp myndina Chelsea Girls. Loks seldust hurðirnar að herbergjum Jimi Hendrix, Madonnu, leikonunnar Isabellu Rosselini og kvikmyndagerðarmannsins Shirley Clarke á 13 þúsund dali.

Stikkorð: Andy Warhol  • Bob Dylan  • Chelsea Hotel  • Sid Vicious