*

Ferðalög & útivist 24. janúar 2014

Hótelin sem breyttu öllu

Hvaða hótel ætli hafi verið fyrst til að bjóða gestum sínum upp á jafn sjálfsagða hluti og útvarp eða herbergisþjónustu?

Þegar fólk gistir á almennilegum hótelum í dag þykir sjálfsagt að geta kveikt á útvarpinu, farið á klósettið inn af herberginu eða hringt á herbergisþjónustu. En í gamla daga var ekkert af þessu í boði þrátt fyrir að hótelin flokkuðust sem lúxushótel.

Á fréttasíðu CNN er áhugaverð grein þar sem fjallað er um hótel sem brutu blað í sögunni með nýjungar.

The Goring hótelið í London var fyrsta hótelið í heimi til að bjóða upp á baðherbergi inn af hótelherberginu sjálfu. Hótelið opnaði 1910 og þótti það hinn mesti lúxus að þurfa ekki að standa frammi á gangi í röð fyrir utan kannski eina baðherbergið á hæðinni. Hótelið þykir enn hið vandaðasta en Kate Middleton gisti þar nóttina fyrir brúðkaup hennar og Vilhjálms Bretaprins.

Boston Park Plaza hótelið í Boston bauð gestum upp á útvarp í hverju herbergi þegar það opnaði árið 1927. Þetta þótti algjörlega stórbrotið vegna þess að á þessum tíma voru útvörp ekki á öllum heimilum og líka vegna þess að á þessum tíma gegndi útvarpið veigamiklu hlutverki í lífi fólks en þar fékk það fréttir og tónlist beint í æð. Útvarp var eins og netið er fyrir fólk í dag. 

The Waldorf Astoria hótelið í New York er kannski þekktast fyrir art deco stíl sinn og fræga gesti í gegnum tíðina en það var líka fyrsta hótelið sem bauð upp á herbergisþjónustu. Þetta var í kringum 1930 og fljótlega fylgdu önnur lúxushótel í kjölfarið og fóru að bjóða upp herbergisþjónustu.

Hér má lesa meira um málið á CNN.

Stikkorð: lúxushótel  • Gaman  • Lúxushótel