*

Bílar 22. júlí 2015

Hraðinn alltaf heillað mig

Sverrir Þóroddsson var sigursæll í Formúlu 3 kappakstrinum á sjöunda áratugnum.

Róbert Róbertsson

Sverrir Þóroddsson er fyrsti kappakstursökumaður Íslendinga en hann keppti með góðum árangri í Formúlu 3 kappakstrinum á sjöunda áratugnum. Sverrir vann keppnir og komst nokkrum sinnum á verðlaunapall. Formúla 3 var á þessum árum næsti flokkur fyrir neðan Formúlu 1 og þar kepptu margir mjög góðir ökumenn sem fóru seinna í F1.

„Ég eignaðist Lotus 31 Formúlu 3 bíl snemma árs 1964. Ég æfði mig á bílnum með því að aka 30 hringi á Snettertonbrautinni á Englandi. Ég skráði mig síðan í keppni þar. Þetta voru tvær 10 hringja keppnir sama daginn. Það var hellirigning og ég hugsaði með mér að allur aksturinn í hálkunni og á malarvegunum heima á Íslandi myndi án efa hjálpa mér sem það og gerði. Ég, ungur og óhræddur Íslendingurinn, keyrði auðvitað eins og brjálæðingur,“ segir Sverrir og brosir.

 

 

„Tímatakan gekk mjög vel. Ég byrjaði vel í sjálfri keppninni og náði að leiða keppnina frá byrjun. Ég ók hvern hring u.þ.b. 10 sekúndum hraðar en næstu menn. Ég gerði tvívegis mistök, sem var líklega eðlilegt fyrir byrjanda, en náði samt að halda forystunni og vinna. Rigningin hjálpaði mér því hinir voru án efa smeykari við að aka of hratt í bleytunni. Jim Russel, margfaldur heimsmeistari í F2 og F3, kom til mín eftir keppnina og sagði að ég þyrfti að slappa af og reyna að vinna keppnina með sem minnstu forskoti. Þetta var góð ráðlegging sem ég nýtti vel síðar,“ segir Sverrir sem viðurkennir að hann hafi nánast þurft að klípa sig í handlegginn til að átta sig á því að þetta var raunveruleiki en ekki draumur.

Hann keppti oft þetta ár á Snetterton brautinni og vann F3 keppnisröðina fyrir árið 1964. Hann vann fyrstu tvær kappaksturskeppnir sínar sem verður að teljast einstakur árangur. Þessi ungi Íslendingur fékk nú óvænta athygli frá akstursíþróttaheiminum svo snemma á ferlinum. „Ég vann nokkrar keppnir þetta fyrsta ár. Ef rigndi gekk mér betur en hinum en reyndari ökumenn voru hraðari í þurru veðri. Ég lærði hratt og vel og sankaði að mér reynslu sem nýttist vel.“

 

 

Sekúndubrotum frá sigri í Monza

Í júní 1966 tók Sverrir þátt í kappakstri í Monza brautinni, Mekka akstursíþrótta.

„Ég ók einn til Ítalíu og dró kappakstursbílinn á vagni. Ég hafði aldrei verið á Monza áður þannig ég þurfti að byrja að læra brautina í tímatökunni. Tímatakan tókst bærilega og ég byrjaði í fimmtánda sæti. Spennan var yfirþyrmandi í ræsingunni sem tókst vel. Því miður hafði ég engan til að taka tímann hjá mér og vissi því varla hvar ég var í keppninni. Það eina sem ég vissi að ég ætti að gera var að aka eins hratt og ég gat og nota kjalsogið frá bílunum á undan. Ég tók fram úr bíl eftir bíl þangað til enginn var fyrir framan mig lengur. Þetta var skrítin tilfinning. Ég náði að vinna fyrri riðilinn og hafði lengst af forystu í úrslitunum, þar sem eknir voru 35 hringir í Monza. Ég var fyrstur út úr lokabeygjunni og hafði verið með forystu nær allan kappaksturinn en tveimur tókst að nota kjölsogið og smjúga fram úr á lokametrunum svo ég varð þriðji,“ segir Sverrir um þennan eftirminnilega kappakstur.

 

 

Fyrstur varð Bretinn Jonathan Williams, sem átti eftir að keppa fyrir Ferrari í Formúlu 1. Í öðru sæti varð landi hans, Mike Beckwith, og Sverrir í þriðja sæti. „Þetta var gríðarlega jafnt. Við ókum nær samhliða yfir marklínuna og nokkrir næstu menn voru aðeins hársbreidd á eftir. Alls munaði rétt rúmri sekúndu á fyrsta og áttunda manni. Fjórði maður, Trevor Blokdyk frá SuðurAfríku, keppti einnig í Formúlu 1 þetta ár,“ segir hann.

Nánar er spjallað við Sverri í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.