*

Bílar 16. júní 2018

Hraðskreiðasti bíll Kia

Róbert Róbertsson

Kia Stinger kom fram á sjónarsviðið seint á síðasta ári og hafði þá verið beðið með talsverðri eftirvæntingu enda öðruvísi en allt annað sem Kia hefur sent frá sér hingað til. Kia Stinger er fjögurra dyra, sportlegur bíll, ekta Gran Turismo, og með honum setur Kia ný viðmið í hönnunar- og framleiðslusögu fyrirtækisins.

Kia Stinger var fyrst kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Frankfurt árið 2011 og vakti þá strax mikla athygli. Bíllinn var frumsýndur fullmótaður á bílasýningunni í Detroit í fyrravor og hefur komið með miklum tilþrifum á markað í Evrópu.

Bíllinn er fallegur í hönnun bæði að utan og innan og sportlegar línur bílsins eru áberandi þar sem löng vélarhlífin og lítil slútun, langt hjólhafið og lág sætastaða spila stórt hlutverk. Kraftalegar axlalínur flæða aftur með bílnum og enda í sterklegum afturhluta sem státar af hágljáandi, svartri vindskeið sem bætir loftviðnám bílsins.

Kia hefur lagt sérlega mikið í þennan bíl og það sést bæði að innan og utan. Innanrýmið er vandað og vel hannað og þar er hvergi til sparað. Hönnunin á Kia Stinger var í höndum Peters Schreyer, yfirhönnuðar og eins af forstjórum Kia Motors, sem hefur undanfarin ár unnið til fjölda eftirsóttra hönnunarverðlauna fyrir bíla Kia.

Mikið lagt í bílinn

Mikið er lagt í hinn nýja Stinger bæði varðandi búnað og þægindi. Í innanrýminu eru kringlóttar lofttúður áberandi sem og mælar með málmumgjörð og satínkrómi. Hágæðaefnisval og nútímaleg innrétting þar sem saumar í leður- áklæðum setja sinn svip á þetta sportlega innanrými. Stór snertiskjár er áberandi í innanrýminu sem býður upp á öll helstu þægindi sem völ er á. Gott aðgengi er að nauðsynlegum upplýsingum úr ökumannssætinu af upplýsingaskjánum.

Fáanlegur er framrúðuskjár sem varpar upp á framrúðuna lykilupplýsingum eins og hraðatakmörkunum og leiðsögn frá leiðsögukerfinu svo ökumaður þarf aldrei að líta af veginum. Þetta er fyrirtaksbúnaður og mjög þægilegur fyrir ökumann. Sportsætin í bílnum eru mjög þægileg og að sjálfsögðu allt í leðri. Það er gott pláss fyrir ökumann og fjóra farþega í bílnum. Farangursrýmið er 406 lítrar sem er alveg ágætt.

4,9 sekúndur í hundraðið

Kia Stinger er mjög aflmikill og hraðskreiðasti bíll sem Kia hefur nokkru sinni framleitt. Í GT útfærslunni, sem reynsluekið var á dögunum, er 3,3 lítra V6 bensínvél með tvöfaldri forþjöppu sem er með hörkugóð afköst. Hún skilar 365 hestöflum og togið er 510 Nm. Kia Stinger GT er aðeins 4,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraði bílsins er 269 km/klst. Eyðslan er frá 10,6 lítrum á hundraðið. Bíllinn er búinn öllum nýjustu akstursog öryggiskerfum frá Kia.

Kia hefur einnig lagt mikinn metnað í að gera aksturseiginleika bílsins sem allra besta. Albert Biermann sá um aksturseiginleikahluta bílsins. Biermann kom til Kia frá BMW árið 2014 eftir 30 ár í starfi þar og er mjög virtur í  bílaheiminum.

„Þetta er einstakur bíll fyrir Kia bæði hvað varðar útlitið, aflið og aksturseiginleikana,“ sagði Biermann þegar Stinger var kynntur fyrir blaðamönnum og er mikill sannleikur í þessum orðum Þjóðverjans. Bíllinn er búinn fullkomnu MacPherson fjöðrunarkerfi að framan og aftan. Bíllinn er mjög skemmtilegur akstursbíll og með þessa kraftmiklu vél er hann fínasta leiktæki.

Steinliggur á veginum

Bíllinn er sérlega sportlegur í akstri og á 19 tommunum er hann nokkuð stífur. Hann steinliggur á veginum jafnvel þótt tekið sé á honum í beygjum. Bíllinn er með fjórhjóladrifi sem gerir hann enn stöðugri í öllum akstri hvort sem er á malbiki eða möl. Kia Stinger er búinn fimm akstursstillingum, Personal, Eco, Sport, Comfort og Smart og ökumaður getur þannig valið um hvernig hann vill hafa aksturinn. Í sportstillingunni er hann skemmtilegastur og mesta villidýrið en ef maður vill minnka eyðsluna þá er um að gera að setja í ECO.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð. Aðrir geta skrá sig í áskrift hér.

Stikkorð: Frankfurt  • Kia  • bílasýning  • sportlegur  • sterklegar línur  • Stinger