*

Bílar 22. júní 2012

Hraðskreiðasti lögreglubíllinn

Ítalska lögreglan notar fimm ára gamlan Lamborghini við að flytja gjafalíffæri milli staða og við hraðbrautaeftirlit.

Eftir því sem næst verður komist ekur ítalska lögreglan um á hraðskreiðasta lögreglubíl í heimi. Bíllinn er af gerðinni Lamborghini Gallardo LP560-4.

Má segja að efnahagskreppan hafi bitið fleiri en fjárfesta í rassinn því bílarnir, sem eru tveir, eru orðnir fimm ára gamlir og ekki útlit fyrir að þeir verði endurnýjaðir á næstunni.

Lamborghini gaf lögreglunni bílana árið 2008. Þeir komu í stað eldri bíla frá sama framleiðanda sem ítalska lögreglan hafði notað áður í tæp þrjú ár. 

Bílarnir eru með V10 vélum sem skila 562 hestöflum og eru aðeins 4 sekúndur í hundraðið. Hámarkshraðinn er 324 km á klukkustund.

Bílarnir eru notaðir til að flytja gjafalíffæri milli staða og við eftirlit á hraðbrautum í mið- og suður-Ítalíu.

Hér fyrir neðan má sjá tvö myndbönd þar sem annar bílanna var við akstur á Monza kappakstursbrautinni í Norður Ítalíu.

Stikkorð: Lamborghini