*

Hitt og þetta 1. desember 2013

Hrátt kjöt eða nýtt dót fyrir jólin

Jólamatur sem mannfólkið borðar yfir hátíðirnar er alls ekki við hæfi dýra samkvæmt dýralækni.

Lára Björg Björnsdóttir

 Ef fólk vill leyfa gæludýrunum að taka þátt í jólahaldinu verður það þó að forðast að gefa ferfætlingunum af jólahlaðborðinu samkvæmt Katrínu Harðardóttur, dýralækni á Dýraspítalanum í Víðidal.

„Dýrin mega ekki fá unnar eða reyktar kjötvörur. Þær valda niðurgangi. Ef fólk vill gefa dýrunum eitthvað sérstakt er best að gefa þeim ókryddað fuglakjöt, ef þau þola fugl því þetta er allt auðvitað einstaklingsbundið,“ segir Katrín.

Hún varar einnig eindregið við smákökum og öðrum sætindum. „Alls engan sykur. Það er algjör óþarfi að gefa dýrum sætindi og súkkulaði og rúsínur eru til dæmis algjört eitur fyrir hunda. Þeir þurfa auðvitað töluvert magn af þessu til að drepast en þetta getur valdið alls konar einkennum. Ef maður ætlar að gera eitthvað sérstakt fyrir dýrin er hrátt kjöt best, nagbein eða bara nýtt dót. Það þarf ekki alltaf að vera matur. Leikið bara frekar við dýrin,“ segir Katrín.

Stikkorð: Hundur  • Gæludýr  • Jólaspól