*

Matur og vín 11. júlí 2013

Hrefna Sætran: Frábært að vera boðin í mat

Hrefna Sætran, kokkur og veitingahúsaeigandi, er öllu vön þegar kemur að því að grilla.

Lára Björg Björnsdóttir

„Mér finnst gaman að grilla allt,“ segir Hrefna Sætran, kokkur og veitingahúsaeigandi, spurð hvað henni finnst skemmtilegast að grilla. „Maður þarf að hugsa vel út í það hvað maður er að fara að gera áður en maður framkvæmir. Þannig nærðu besta árangrinum,“ segir Hrefna.

En hvernig ætli það sé fyrir vini og vandamenn Hrefnu að bjóða henni í mat? Verður fólk ekkert stressað? „Jú, og það veit ekkert hvað það á að elda. Ég fæ oft að heyra fyndnar sögur af því frá fólki eftir matinn. En þegar það sér hversu afslöppuð og þakklát ég er þá finnst þeim þetta ekkert mál og mér er þá boðið aftur í mat. En ég er oft beðin um góð ráð við hinu og þessu í matseldinni. Og svo er klassískt að heyra fólk segja: „Þetta er nú ekkert merkilegt hjá mér“ eða ég er spurð hvort maturinn sé í lagi, en mér finnst bara frábært að vera boðin í mat og alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt hvort sem það er í heimahúsi eða á veitingastað. Það gefur mér innblástur.“

Nánar er spjallað við Hrefnu Sætran í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu, sem kemur nú út í fyrsta skipti með Viðskiptablaðinu. Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.