*

Veiði 18. nóvember 2013

Hreggnasi leigir Laxá í Dölum

Veiðifélagið Hreggnasi verður með Laxá í Dölum á leigu út sumarið 2018.

Hreggnasi og Veiðifélag Laxdæla, sem er félag veiðiréttareigenda Laxár í Dölum, hafa undirritað samkomulag um að Hreggnasi verði með ána á leigu næstu fimm ár. 

Hreggnasi hefur látið töluvert til sín taka á laxveiðimarkaðnum. Nýlega samdi félagið um leigu Brynjudalsár í Hvalfirði sem og um leigu á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal hluta úr sumri.  Þá er  Hreggnesi með Grímsá/Tunguá á leigu, Laxá í Kjós, Svalbarðsá, Korpu, Krossá á Skarðsströnd og Fossá í Þjórsárdal.

Hreggnasi hyggst gera nokkrar breytingar á veiðitilhögun í Laxá í Dölum.

„Stangardögum verður fækkað mikið yfir sumarið og hér eftir verður einvörðungu leyfð fluguveiði í Laxá í Dölum,“ segir í tilkynningu frá Hreggnasa. „Eins verða kvótar minnkaðir með það að markmiði að auka við framleiðslugetu árinnar, en Laxá byggir eingöngu á náttúrulegri hrygningu.“

Síðasta sumar veiddust 710 laxar í Laxá í Dölum sem er töluvert undir meðaltali undanfarinna tíu ára. 

„Laxá í Dölum er ein þekktasta laxveiðiá landsins og hefur gjarnan raðað sér í efstu sæti á landsvísu, ekki síst þegar horft er á afla á hverja dagsstöng,“ segir í tilkynningu. „ Meðalveiði síðastliðinna tíu ára eru 1.263 laxar á aðeins sex dagsstangir, og eru fáar laxveiðiár hérlendis sem státa að slíku meðaltali.“

Stangaveiðifélag Reykjavíkur, sem ólíkt Hreggnasa hefur verið að draga saman seglin, var með bæði Nessvæðið og Laxá í Dölum á sínum snærum þar til í haust.

Stikkorð: Veiði