*

Bílar 1. nóvember 2015

Hreinræktaður og sprækur borgarbíll

Subaru Levorg Lux hefur margt að bjóða fyrir borgaralega sinnaðan ökumann.

Guðjón Guðmundsson

Subaru hefur sjaldnast verið talinn djarfastur bílasmiða þegar kemur að útliti. Legacy og Impreza voru og eru vel smíðaðir bílar en fæstir taka andköf yfir „lookinu“, nema gallhörðustu aðdáendurnir sem þó hlóðu gjarnan bíla sína aukabúnaði, eins og sverum vindskeiðum og pústtautum í yfirstærð, sem margar Imprezur státuðu af. En Subaru hefur frá fyrstu tíð markað sér sérstöðu meðal framleiðenda. Sérstöðu sem byggist á fjórhjóladrifi og flatri boxervélinni. Þessi samsetning hefur átt upp á pallborðið á Íslandi og með tímanum hafa framleiðslugæði Subaru stöðugt aukist.

Sportleg nálgun

Og nú er tíðin önnur. Subaru Levorg, sem var kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Tókíó 2012, fór í sölu í Evrópu í byrjun árs 2015. Nú er BL að kynna þennan áhugaverða bíl sem vekur sannarlega athygli fyrir djarft útlit. Hann kemur í stað Legacy sem lengi hefur þjónað Íslendingum til sjávar og sveita en leysir hann ekki beinlínis af hólmi. Það fyrsta sem fangar augað er stórt loftinntak á vélarhlíf Levorg sem sér flatri, boxervélinni fyrir kælingu.

Það sem setur svo tóninn eru LED ljós og speglahús með silfuráferð, sportlega lagaðir sílsar ásamt 17 tommu álfelgum og skörpum formlínum að framan sem mýkjast eftir því sem aftar dregur. Tvöfalt pústkerfi er síðan sportstimpillinn, ef einhver skyldi efast. Þetta er öðruvísi Subaru en við höfum átt að venjast. Meiri borgarbíll en minni alhliða bíll til sjávar og sveita, eins og forveri hans Legacy var. Þetta er áherslubreyting hjá Subaru en framleiðandinn hefur upp á aðra kosti að bjóða þeim sem þurfa að komast leiðar sinnar út fyrir rennislétt malbikið. Þar fer fremstur í flokki Forester en Outback er valkostur þeirra sem vilja fara bil beggja heima.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Subaru  • Levorg  • Lux