*

Heilsa 19. janúar 2014

Hrekktu fólk í ræktinni

Ekki láta þér leiðast þó að það sé janúar. Til eru ýmsar leiðir til að láta tímann líða í myrkrinu, kuldanum og volæðinu.

Lára Björg Björnsdóttir

Janúarmánuður er ekki allra. Veðrið er vont, myrkrið svart, jólaseríum fækkar og það er ekkert fram undan nema stór vísareikningur og svartnætti.

Hvað er hægt að gera þegar manni leiðist þessi áráns ósköp? Jah, fyrir fólk sem þráir smá félagsskap og stuð má alltaf fara þangað sem allir eru. Og hvar er það? Jú, ræktin. Ég meina, það eru ALLIR í ræktinni í janúar. Þar er stuðið.

En auðvitað nenna ekki allir að sprikla og hamast enda eru margir hreinlega of þjakaðir og bugaðir (enda janúar). En það má gera ýmislegt annað í ræktinni. Eins og að hrekkja þá sem þar hamast. Góðlátlega auðvitað.

Skoðum nokkur góð trix til að gera janúar svona aðeins meira, æi ég veit það ekki, hressari.

Minntu á gömlu góðu siðina: Þegar mótiveraða- og heilsuhrausta fólkið þrammar framhjá þér á leið inn í líkamsræktarsalinn skaltu vera búin(n) að koma þér fyrir á áberandi stað. Klæddu þig í fallegan víkingabúning og graðgaðu í þig sviðakjamma. Ef einhver spyr hvað þú sért að gera segðu að þú sért að hita upp fyrir þorrann. Blikkaðu kunningja með tennurnar á kafi í sviðinu þegar þeir ganga fram hjá þér í hlaupagallanum.

Farðu í „fela hlut“: Á meðan fólk er önnum kafið á brettunum skaltu læðast um salinn og fela bústin og vatnsbrúsana. Þetta má allt saman gera í víkingadressinu. Þú ert auðvitað ekkert villidýr af illsku svo þess vegna skaltu láta bústin og brúsana birtast óvænt með því að stökkva á fólkið þar sem það liggur til dæmis og teygir sig og slakar á eftir erfiða æfingu. Aftur: Hér er lykilatriði að vera í búningi og með kjammann á þér.

Sjónvarpsefni: Reyndu að finna græjuna sem stjórnar sjónvarpsstöðvunum og ruglaðu aðeins í þeim. Finndu góðar auglýsingar frá kjötvinnslufyrirtækjum, vindlaframleiðendum og gosdrykkjaframleiðandanum Mountain Dew og spilaðu þetta aftur og aftur.

Kallkerfið: Biddu endalaust um að fólk sé kallað upp. Notaðu algeng nöfn eins og Gunna sæta eða Sigga mjóa. Þá má líka alltaf kalla upp Sigga brúna eða Gumma mjóa og segja þeim að verið sé að veita verðlaun fyrir fallegustu brúnkuna. Eftir þetta stuð skaltu fara í kallkerfið og syngja KFC auglýsingar í fallegri madrígalaútsetningu.

Fræðsla: Gakktu um salinn valdsmannsleg(ur) í fasi í íþróttagalla og tilkynntu fólki að það sé að nota vitlaust prógram. Segðu að fjallgönguprógrammið eyðileggi þolið í janúar. Dragðu fram skjöl og segðu fólki að þú sért með kóreska rannsókn sem sanni mál þitt og láttu fólk lesa. Hafðu letrið smátt og bjóddu fram stækkunargler.

Ferskt loft: Skríddu inn í Hot Yoga-klefann og opnaðu gluggann.

Upplausn: Farðu inn í lúxusklefann með gemsann, hafðu hringinguna eitthvað með Skálmöld, stilltu hljóðið á hæsta og læstu símann inni í skáp. Tylltu þér síðan á bekk við hárblásaraspegilinn og hringdu í sjálfa(n) þig trekk í trekk. Hafðu með KFC fötu og nærðu þig. Maður má ekki gleyma því að borða þó að það sé gaman.

Stikkorð: Vonbrigði  • Gaman  • Fjör  • Örvænting  • Janúar