*

Ferðalög & útivist 7. mars 2013

Hressasti leigubíll í heimi

Viltu komast í nudd, grasagarð með læk og karíókístuð allt á sama staðnum? Taktu þá leigubíl í Seúl.

„Viltu nudd?“ Þetta er spurning sem fólk má búast við að fá þegar það sest inn í einn hressasta leigubíl veraldar en hann er að finna á götum Seúl í Suður-Kóreu. CNN segir frá þessu máli á vefsíðu sinni.

Heiðurinn af þessum leigubíl á bílstjórinn Chung Nok-hyun sem er á sjötugsaldri. Hann á þann draum heitastan að allir leigubílar í Seúl verði eins og leigubíllinn hans.

Loftið í bílnum er veggfóðrað fallegu blómaskrauti. Undir bílstjórasætinu eru jólaseríur og ef það er ekki nóg þá er lítill gosbrunnur við fætur farþegans. Þar má finna lítið vatnshjól og gullfisk. Lifandi gullfisk. Þá er hægt að syngja karíókí í leigubílnum ef andinn kemur yfir farþegana.

Chung Nok-hyon fór á eftirlaun fyrir sjö árum og fór þá að útbúa leigubílinn sinn. Hann keypti nuddtæki og kom því fyrir í bílnum. Hann syngur líka ef þess er óskað. Og nuddið, það er ókeypis. Hann er einnig að útbúa þráðlaust net og tölvu sem næsta kost fyrir viðskiptavini sína. Hann segir að hann voni helst að borgarstjóri Seúlborgar taki leigubíl hans sér til fyrirmyndar og útbúi alla leigubíla borgarinnar eins og bíl hans.

Stikkorð: Leigubílar  • Suður-Kórea