*

Bílar 26. júní 2021

Hrífandi hæfileikabúnt

ID.4 var á dögunum valinn Bíll ársins á Íslandi en áður hafði hann verið valinn Heimsbíll ársins 2021.

Róbert Róbertsson

Volkswagen ID.4 er algerlega nýr bíll frá grunni. Hann kemur á markað í kjölfar minni fólksbílsins ID.3 og með þessum tveimur vel heppnuðu bílum kemur þýski bílaframleiðandinn í Wolfsburg afar sterkur inn í rafbílaslaginn. Volkswagen stefnir að því að afhenda 150.000 ID.4 rafbíla á þessu ári.

Framsækin og flott hönnun

Hönnun ID.4 er framsækin og flott. Það má með sanni segja að hönnuðir bílsins hafi þorað að láta stórar hugmyndir verða að veruleika.

Ytra útlit ID.4 er sportlegt og nútímalegt. Framljósin eru gagnvirkar LED-ljósaeiningar sem mynda framhlið sem samanstendur af LEDljósastiku í fullri breidd og sléttum, grilllausum framenda. Rúður eru stórar með framrúðu sem teygir sig langt í átt að framás og miðjulínan minnir líka á minni bílinn.

Þessi bíll fær annan afturhlera með LED-afturljósum í fullri breidd, en jeppaútlitið er undirstrikað meðal annars með köntum á brettum og útstæðari afturrúðu, sem hjálpar til við að gefa ID.4 svolítið kassalaga jeppaform.

Hallandi sólþak með óhindrað útsýni til allra átta er í boði sem aukabúnaður. Risastórt, innfellt glerið sem nær þvert yfir þakið setur einnig mark sitt á bílinn en skiptir þó ekki sköpum því útlitslega séð er ID.4 vel lukkaður bíll með eða án glerþaksins.

Liggur vel og er rásfastur

Reynsluakstursbíllinn er í Purelínunni með minni rafhlöðunni, sem er 52 kW. Hún skilar allt að 340 km drægi samkvæmt WLTP-staðli og 150 hestöflum í afli. Hámarkstog er 220 Nm.

Bíllinn er með afturhjóladrifi. Hann er 10,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 160 km/klst. Hleðslutími upp í 80% er um 38 mínútur og reyndi á það í reynsluakstrinum þegar hlaðið var í Borgarnesi. Hleðslutími AC er 7 klst. og 30 mín.

Aksturseiginleikarnir eru mjög góðir í alla staði. Bíllinn liggur mjög vel og er rásfastur. Stýringin er mjög góð jafnvel þótt tekið sé á honum í beygjum og ekið eins greitt og lög gera ráð fyrir. ID.4 er framleiddur á MEB-grunninum sem var þróaður sérstaklega fyrir rafvæðingu í samgöngum á heimsvísu.

Bíllinn er eðlilega mjög hljóðlátur enda rafmagnsbíll og það finnst vel hversu þéttur hann er í alla staði.

Stærri rafhlaðan dregur 520 km

ID.4 er einnig í boði með stærri 77 kW rahlöðu með allt að 520 km drægi samkvæmt WLTP-staðli. Rafmótorinn skilar bílnum 240 hestöflum og 310 Nm í hámarkstogi. Hröðunin úr kyrrstöðu í hundraðið með stærri rafhlöðunni er 8,5 sekúndur.

Þá er ID.4 einnig í boði með fjórhjóladrifi. Hér er þetta spurning um hvað hentar hverjum og einum. Fyrir marga er nóg að hafa minni rafhlöðuna, þá sérstaklega í borginni þegar auðvelt er að hlaða. Ef ekið er mikið út fyrir borgarmörkin er auðvitað betra að hafa meira drægi eins og gefur að skilja.

Einhverjir munu vilja hafa fjórhjóladrif en fyrir marga er alveg nóg að hafa drif á tveimur hjólum. Þetta er smekksatriði eins og svo margt annað. Verðið skiptir líka flesta máli, en töluverður verðmunur er á ódýrustu útgáfunni, sem kostar um fimm milljónir, og dýrustu útfærslunni, sem er rétt um átta milljónir.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.