*

Bílar 12. febrúar 2016

Hrifin af stórum bílum

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Heklu, er hrifin af stórum bílum.

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Heklu, ekur um á stórum og stæðilegum Volkswagen Amarok pallbíl sem gerir henni kleift að ferðast með alla fjölskylduna um hrjóstugt landslag Íslands allan ársins hring

„Við fjölskyldan erum búin að eiga Amarok-jeppann í rúmt ár og finnst það frábært. Þetta er mikill og stór bíll sem hentar einstaklega vel við íslenskar aðstæður og kemur okkur örugglega á áfangastað. Við fjölskyldan komumst líka vel fyrir í honum með allt það dót sem við viljum taka með í ferðalögin. Við eigum líka Golf GTD sem er svo kraftmikill að manni finnst hann næstum prjóna af stað ef maður gefur örlítið inn. Ég verð að viðurkenna að það er auðveldara að ferðast um á nettum Golf í miðborginni en þeim stóra,“ segir Þórhildur og brosir.

Hver er minnisstæðasta bílferðin þín?

„Minnisstæðasta bílferðin var þegar ég var stelpa og ég fór með fólki, sem ég dvaldi hjá nokkur sumur í sveit á Barðaströndinni, til Lokinhamra á Vestjörðum en vegurinn þangað var gerður af vestfirskum manni á jarðýtu. Vegurinn var einbreiður, hátt uppi og í snarbrattri hlíð. Þegar við vorum komin vel á veg og mjög hátt upp í hlíðina, að mér fannst, þurftum við að stoppa því skriða hafði fallið á veginn. Þetta herti mann svo sannarlega. Þetta eru orðin ansi mörg ár síðan en hið ótrúlega er að enn í dag erum við að glíma við slæma vegi og þá sér í lagi á landsbyggðinni.“

Nánar er rætt við Þórhildi í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.