*

Tíska og hönnun 14. maí 2016

Hringlaga form í sumar

Þar sem sól hækkar á lofti er tilvalið að skoða hvernig sólgleraugnatískan verður þetta sumarið.

Eydís Eyland

Allir bera þá von í brjósti að sumrið verði sólríkt og gott, þótt Ísland eigi það til að valda vonbrigðum hvað þetta varðar. Engu að síður er nauðsynlegt hverri manneskju að eiga góð sólgleraugu, hvort heldur það er til að hafa á sólskinsdögum hér heima, til að hafa með á erlendar baðstrandir, eða einfaldlega til að líta vel út.

Raunar eru heilsufarslegar ástæður fyrir því að ganga með sólgleraugu þegar birta er mikil. Augnlæknar mæla með því að fólk gangi helst ekki mikið úti gleraugnalaust, þegar sól er mikil, enda geta útfjólubláir geislar skaðað sjónina til lengri tíma litið.

Allt í gangi í sólgleraugunum

Linda Ólafsdóttir í gleraugnaversluninni Optical Studio þekkir betur til sólgleraugnatískunnar en margur og ræddi Viðskiptablaðið við hana um hvað heitast verður í sólgleraugnatískunni í sumar. „Það besta við tískuna í ár er að það er allt í gangi. Hringlaga form eru að koma mjög sterk inn núna hjá öllum framleiðendum. Þeir eru flestir að gera svipaða hluti. Mikið um retro form sem og sólgleraugu með brú yfir. Framleiðendur hafa verið að reyna að koma á markaðinn hringlaga forminu í nokkur ár og er það loks að takast núna, þar sem fólk getur verið svolítið lengi að taka við sér og samþykkja breytingar. Ég sem innkaupastjóri er að sjá á sýningum að hringlaga formið er sterkast í sumar. Þó svo að hringlaga sé mest í dag þá er samt allt í gangi, flugmannagleraugu eru ennþá mjög vinsæl og hafa alltaf verið það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.