*

Hitt og þetta 28. júlí 2013

Hringvegurinn fyrir þá sem eiga pening

Gull, uppstoppuð dýr og lítið tölvuver í eftirdragi. Möguleikarnir eru endalausir fyrir ríka fólkið og landsbyggðina.

Lára Björg Björnsdóttir

Ef þú átt pening og langar út á land þá er hér dýrindis leiðarvísir fyrir þig og fjölskylduna.

Gisting: Fyrir notalega gistingu er tilvalið að stoppa á Hótel Búðum. Hótelið er heimsfrægt fyrir smekklegheit, einstaka staðsetningu og góðan mat. Nú yfir háannatímann kostar nóttin í svítunni 51.500 krónur. Hvers vegna ekki að stoppa þar í nokkra daga og ná borgarhrollinum úr sér áður en haldið er áfram?

Nesti: Nesti þarf ekki að vera ódýrt djönk eins og flatkökur, jógúrt eða önnur vitleysa. Dýrindis kæfa, pylsur og ostar fást öllum betri ostabúðum í bænum. Það þarf síðan að skola þessu niður með einhverju. Kauptu því gos í litlum glerflöskum. Þetta mun allt saman slá í gegn á bílaplaninu á N1 þegar þú dúndrast inn á planið, rúllar út blúndudúk og leggur herlegheitin á borð fyrir framan samborgara þína sem eru að slafra í sig rækjusalati og kókómjólk á einhverju gasalegu tvennutilboðinu eða einhverju þaðan af verra.

Sund: Veldu þér almennilega laug og láttu loka henni fyrir þig og þína. Hver vill lenda í samstuði á sundbrautinni eða öðrum djöfulgangi? Ekki þú. Enda ertu komin(n) út á land til að slaka á. Fallegar sundlaugar er að finna víða um land. Veldu þér bara laug og kauptu daginn og hafðu það fa-lott.

Veiði: Skelltu þér í veiði í Selá eða Hofsá í Vopnafirði. Veiðihúsið við Selá er sérsniðið að þörfum auðjöfra frá Texas sem lenda á einkaþotum á Egilsstöðum og renna beint norður að veiða.

Veitingar: Slakaðu aldrei á í veitingunum. Dragðu fram kampavínsflöskuna hvar sem þið stoppið. Gullfoss og Geysir? Kampavín og kavíar! Kerið í Grímsnesi? Rauðvínstár og hráskinka! Fallegur mosi eða hraunhnullungur við veginn? Mozartkúlur og koníakstár!

Verslun: Kauptu gull og uppstoppuð dýr hvar sem þú kemur.

Fyrir þá sem vilja falla í hópinn: Það er allra veðra von í svona utanbæjarferðum og því er góður útbúnaður lykilatriði. Klæddu fjölskylduna upp í alklæðnað frá Farmers Market og kauptu 66 gráður norður úlpur á línuna. Klipptu síðan merkin af fötunum svo hinu fólkinu líði eins og þú sért „einn af þeim“ þegar þið hittist á tjaldstæðinu. Ef þér er illa við að klippa í ný föt getur þú bara sagt áður en lengra er haldið þegar þú og einhver venjulegur standið saman við vaskafatið að vaska upp grilláhöldin í þjónustumiðstöðinni: „Ég skil ykkur hin alveg þó mín úlpa hafi kostað meira en tjaldið þitt.“

Fyrir þá sem vilja ekki falla í neinn árans hóp: Veldu þér eina af þessum litlu sætu eyjum sem allir eru að krúttast á þessa dagana. Leigðu hana í viku og skikkaðu eyjaskeggja og aðra sem heimsækja eyjuna til að hneigja sig fyrir þér hvar sem þú kemur. Ef þú nennir má líka hugsa aðeins fram í tímann og láta útbúa mynt og frímerki með mynd af þér. Og annað (aftur: smá undirbúningur), þú gætir látið sauma flögg með þínu eigin skjaldarmerki og láta draga að húni við hvert hús.

Netið – Til að öll dýrðin skili sér almennilega til umheimsins og fari ekki framhjá vinum, ættingjum, vinnufélögum og aðdáendum er algjörlega krúsjalt að facebook-a og instagramma ferðina. En auðvitað nennir þú ekki að vera sífellt með símann á lofti, taggandi, póstandi, snapptjattandi og instagrammandi á fimm mínútna fresti þegar þú hefur öðrum demantshnöppum að hneppa. Leigðu því lítið tölvuver og komdu því fyrir í hjólhýsi. Þetta hjólhýsi keyrir síðan fyrir aftan ykkur fjölskylduna alla ferðina. Þrír starfsmenn að lágmarki verða í hjólhýsinu, einn keyrir á meðan hinir sjá um alnetið. Þú ert auðvitað í fríi og vilt hvílast og bonda við fjölskylduna. Engin andleg fjarvera á þínu ferðalagi.