*

Ferðalög & útivist 26. maí 2012

Hringvegurinn kostar 140.000 krónur

Ferðalag meðalfjölskyldu í kringum landið kostar 138.000 krónur, en þá er miðað við að ekki sé alltaf sofið í tjaldi.

Vikulöng ferð ímyndaðrar fjögurra manna fjölskyldu í kringum landið myndi kosta um 60.000-140.000 krónur ef matarkostnaður er ekki tekinn með í myndina. Í samantektinni er lagður saman eldsneytis- og gistingarkostnaður auk kostnaðar við tómstundir á leiðinni. Ástæðan fyrir því að matur er ekki með í reikningnum er sú að fjölskyldan þarf jú að borða hvort sem hún er á ferð um landið eða ekki og því er ekki í raun hægt að tala um matarkostnað sem kostnað við ferðina. Hins vegar mætti ætla að matarkostnaður í ferðalaginu væri á bilinu 50.000-60.000 krónur.

Ferðin mun taka sjö daga og munu þau því gista sex sinnum á leiðinni. Þau eru sæmilega hagsýn en vilja þó ekki eyða öllum nóttunum í svefnpoka og tjaldi. Er því gert ráð fyrir því að af sex nóttum gisti þau fjórum sinnum í tjaldi, einu sinni í gistiheimili og einu sinni í bændagistingu.

Lauslega áætlað er eldsneytiskostnaður ferðarinnar um 30.000 krónur, kostnaður við gistingu um 67.000 krónur og kostnaður við tómstundir um 41.500 krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: Hringvegurinn