*

Menning & listir 24. september 2013

Hross í oss valin á Óskarinn

Íslenski hesturinn og ást í sveitinni verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári.

Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían valdi kvikmyndina Hross í oss sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Myndin mun því keppa fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli.

Fram kemur í tilkynningu að Hross í oss hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og var kosið á milli þeirra fimm íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2012 til 30. september 2013.

Hross í oss er fyrsta kvikmynd Benedikts Erlingssonar í fullri lengd og er grimm sveitarómantík um hið mennska í hrossinu og hrossið í manninum, þar sem ást, kynlíf, hross og dauði fléttast saman með skelfilegum afleiðingum. Benedikt leikstýrir myndinni og skrifar jafnframt handrit hennar en framleiðandi er Friðrik Þór Friðriksson.

Myndin er þegar komin í sýningu á mörgum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Þessa vikuna eru þeir Benedikt og Friðrik Þór að sýna myndina á alþjóðlegu hátíðinni í San Sebastian en tilkynnt verður um úrslit í keppninni á laugardaginn. Myndin hefur einnig verið valin til keppni í einni stærstu kvikmyndahátíð í Asíu, Tókýó kvikmyndahátíðinni í október. Þá verður Hross í oss opnunarkvikmynd á Lubeck hátíðinni í Þýskalandi í lok október og er líka komin á Gautaborgarhátíðina í janúar á næsta ári.

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.

Stikkorð: Hross í oss