*

Tölvur & tækni 19. febrúar 2013

HTC kynnti nýjan HTC One síma í dag

Skjár snjallsímans er með mun hærri upplausn en keppinautarnir og þá er myndavélin með glænýrri tækni.

Tævanski farsímaframleiðandinn HTC kynnti í dag nýjustu útgáfuna af HTC One snjallsímanum og á hann að taka við af HTC One+ sem flaggskip fyrirtækisins. Samkvæmt fréttum af kynningunni er hann um margt svipaður öðrum símum af nýjustu gerð. Hann er með 1,7 gígaherza fjórkjarna örgjörva, með 32 eða 64 gígabæta geymsluminni og tveggja gígabæta vinnsluminni. Hann þykir einnig fallega hannaður, en síminn er skorinn úr einum álklumpi og tekur það víst ríflega þrjá tíma að skera hvern síma út.

Að tvennu leyti sker nýi síminn sig þó úr samkeppninni. Í fyrsta lagi er upplausnin á 4,7 tommu stórum skjánum mun meiri en á nýjustu símunum frá öðrum framleiðendum. Upplausnin er 1920 x 1080 og alls eru 468 pixlar á hverja þvertommu á skjánum. Til samanburðar er þessi tala 326 á iPhone 5 og 306 á Galaxy S III.

Þá er myndavélin mjög óvenjuleg að því leyti að hún er „aðeins“ fjórir megapixlar, en aðrir símar eru nú allir með að minnsta kosti átta megapixla myndavélar. HTC vill hins vegar meina að tæknin á bak við myndavélina sé svo stórmerkileg að réttara sé að tala um últrapixla í stað megapixla. Þeir eru stærri en venjulega og samkvæmt fyrirtækinu taka þeir inn 300% meira ljós. Sérstakur tölvukubbur sér um að vinna úr myndunum, sem teknar eru í gegnum linsu sem á að líkja eftir venjulegri 28mm linsu. Þeir sem prófað hafa símann og myndavélina segja að hún virðist virka mjög vel, einkum þegar ljós er lítið, en fáir eru tilbúnir að gefa henni fulla einkunn áður en þeir hafa fengið að prófa símann betur.

Stikkorð: HTC  • HTC One