*

Menning & listir 3. janúar 2016

Hugbúnaðurinn étur heiminn

Tónlistar-, bóka- og kvikmyndamarkaðir hafa tekið miklum breytingum í takt við breyttar neysluvenjur.

Kári Finnsson

Fjárfestirinn Marc Andreessen sem er einna þekktastur fyrir að hafa stofnað netvafrann Netscape vakti fyrir nokkrum árum máls á áhugaverðri þróun sem orðið hefur í tæknigeiranum. Á meðan stór hugbúnaðarfyrirtæki í Kísildalnum halda áfram að stækka og áhrif fyrirtækja á borð Google og Facebook vaxa um allan heim hafa margir velt því fyrir sér hvort um einhvers konar bólu sé að ræða í tæknigeiranum. Svo er ekki raunin að mati Andreessen heldur er tæknigeirinn að færa sig yfir á nýtt stig sem mun með tíð og tíma gjörbylta okkar daglega lífi.

„Hugbúnaður er að éta heiminn“ (e. Software is eating the world) er slagorð hans til að lýsa því hversu háð hugbúnaði nær öll heimili og fyrirtæki eru orðin. Hann bendir á þá staðreynd að fyrir 15 árum notuðu einungis 50 milljónir manns internetið, tveir milljarðar manna nota það í dag og spáir Andreessen því að á næstu tíu árum muni að minnsta kosti fimm milljarðar manna eiga nettengda snjallsíma.

Skapandi eyðilegging

Við erum nú þegar farin að sjá þessa þróun á sviði afþreyingargeirans og hvernig hefð­bundin fyrirtæki á þeim sviðum hafa nánast hrunið vegna örfárra netrisa á borð við Amazon, Spotify og Netflix. Andreessen minnist á það í grein sinni um þessa þróun þegar ein stærsta bókaverslun Bandaríkjanna, Borders, ákvað að selja netsöluarm sinn til Amazon árið 2001 vegna þess að stjórnendur fyrirtækisins töldu netsölumarkaðinn ekki líklegan til vinsælda. Tíu árum síðar varð Borders gjaldþrota m.a. vegna aukinnar samkeppni frá Amazon.

Svipaða sögu má segja af myndbandaleigunni Blockbuster í Bandaríkjunum. Árið 2004 hafði fyrirtækið um 60.000 starfsmenn og rúmlega 9.000 verslanir. Árið 2011 voru 1.700 verslanir eftir og var fyrirtækið keypt á hrakvirði þegar það nálgaðist gjaldþrot. Ástæðan var samkeppni frá fyrirtækjum á borð við Netflix sem buðu upp á streymt afþreyingarefni í gegnum internetið.

Eitt sinn var það fastur liður á meðal tónlistaráhugamanna að þræða plötuverslanir en nú virðist sem þær séu fyrst og fremst félagsmiðstöðvar vínilnörda. Í Bandaríkjunum er hlutfall stafrænnar tónlistar af heildartekjum útgefenda komið í 46% en var aðeins um 15% árið 2007.

Nánar er fjallað um málið í tímaritinu Áramót. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Google  • Facebook  • Amazon  • Borders  • Netflix  • Spotify  • Marc Andreessen