*

Bílar 9. desember 2013

Hugmyndaauðgi hjá Suzuki

Crosshiker er blendingur sem byggir á Regina hugmyndabílnum sem var sýndur á bílasýningunni í Tókíó 2011.

Suzuki sýndi hvorki fleiri né færri en sex nýja hugmyndabíla á bílasýningunni í Tókíó a dögunum. Blendingurinn Crosshiker var sá sem fékk líklega mesta athygli en hann státar af nýstárlegri hönnun, lítilli þyngd og einkar sparneytinni aflrás. Crosshiker er blendingur sem byggir á Regina hugmyndabílnum sem var sýndur á bílasýningunni í Tókíó 2011. Þrátt fyrir jepplingaform vegur bíllinn ekki nema 810 kg. Hann er með nýrri ein lítra, þriggja strokka vél sem býr yfir nægu afli fyrir þennan létta bíl og er um leið einstaklega umhverfisvæn.

X-Lander vakti einnig talsverða athygli en þar er á ferðinnni hreinræktaður jeppi með bensínvél og rafmótor, svokallaður tvinnbíll. Bíllinn er ætlaður til notkunar í borgum en hann býr jafnframt yfir þeim kosti að komast torfærari slóðir utan borganna. X-Lander byggir á smájeppanum Jimny og er með 1,3 lítra bensínvél og nýrri, sjálfvirkri beinskiptingu. Rafaflrásin er léttbyggð og bíllinn er fjórhjóladrifinn.

Hustler og V-4 eru einnig athyglisverðir hugmyndabílar sem Suzuki setti fram á sjónarsviðið Tókíó. Hugmyndabílar Suzuki gætu orðið fáanlegir í nánustu framtíð en einnig þar eru einnig hugmyndabílar sem taka mið af fjarlægari framtíð. Bílarnir eru hlaðnir búnaði og nýjustu tækni frá Suzuki. 

Stikkorð: Bílar  • Suzuki