*

Bílar 5. janúar 2019

Hugmyndabílar 2018

Hugmyndabílar gefa ákveðna innsýn í það hvernig bílar framtíðarinnar verða. Hér eru fimm slíkir frá nýliðnu ári.

Róbert Róbertsson

Það er alltaf gaman að sjá þegar hugmyndabílar koma fram á sjónarsviðið og hvað bílaframleiðendur eru að spá hvað framtíðina varðar. Hér koma fimm slíkir sem vöktu athygli á árinu.


Renault kynnti hugmyndabílinn EZ-ULTIMO, alsjálfvirkan, nettengdan og rafknúinn leigubíl með miklum lúxus. Franski bílaframleiðandinn hugsar þennan bíl fyrir viðskiptavini sem velja fágætisþjónustu og einstaka upplifun á stórborgarsvæðum eins og Renault orðar það.

Hugmyndin er að bíllinn sinni þjónustu í einkaferðum sem tekið geta um klukkustund eða heilan dag á ferð milli mismunandi áfangastaða, hvort sem er með einstaklinga, lítinn hóp eða viðskiptavini fyrirtækja sem kaupa þjónustuna sérstaklega fyrir verðmæta viðskiptavini sína. Bíllinn er alsjálfvirkur er ekki gert ráð fyrir bílstjóra undir stýri. Í EZ-ULTIMO er vönduð og vel útfærð setustofa í hæsta gæðaflokki.


Mazda kynnti hugmyndabílinn VISION COUPE sem er mjög fallega hannaður. Formið á farþegarýminu eru einkennandi fyrir klassíska coupé hönnun og túlka hreyfingu og hraða.

Við hönnun á innra rými bílsins notast hönnuðir Mazda þætti úr japönskum arkitektúr sem hjálpa til við að búa til yfirvegað og afslappandi andrúmsloft innra rýmis.

„VISION Coupé lýsir hreinni japanskri fagurfræði. Bíllinn er spegill á hugleiðingar okkar til framtíðar og sýnir næsta áfanga í þróun fyrir Kodo hönnun okkar," sagði Ikuo Maeda, framkvæmdastjóri hönnunar- og vörumerkis Mazda, þegar bíllinn var afhjúpaður í Tokýó.

Það ráku margir upp stór augu á bílasýningunni í Genf í vor  þegar króatískur ofursportbíll var frumsýndur. Bílaframleiðandinn heitir Rimac og bíllinn ber heitið Rimac Concept Two. Höfuðstöðvar Rimac eru í Sveta Nedelja í Króatíu og þar á bæ eru menn stórhuga. Eins og nafnið bendir til er hér á ferðinni hugmyndabíll en framleiðslan mun samt vera langt komin. Og samkvæmt upplýsingum frá króatíska bílaframleiðandanum verða framleidd 150 eintök af bílnum. Sportbíllinn er rafdrifinn með fjóra rafmótora sem skila ótrúlegum 1.914 hestöflum. Bíllinn mun komast í hundraðið á innan við tveimur sekúndum og í 300 km hraða á aðeins 11,8 sekúndum. Miðað við þetta þá er Rimac Concept Two hraðasti götubíll heims.


Mitsubishi Motors kynnti sína rafknúinn e-EVOLUTION hugmyndabíl sem er raunar jeppi á bílasýningunni í LA í nóvember. Bíllinn er framúrstefnulegur í hönnun eins og sannur hugmyndabíll og stæðilegur á velli. E-EVOLUTION hefur mikla veghæð til að takast á við gróft landslag. Aflið kemur frá aflmiklum rafmótorum og rafhlöðu með mikla hleðslugetu. Jeppinn er fjórhjóladrifinn og vel rúmgóður bælði fyrir fimm farþega og farangur.


Audi PB 18 var kynntur til leiks á bílasýningunni í París í haust. Þetta er hugmyndabíll sem notar nýja rafmagns e-tron tækni Audi og hugsaður sem sportbíll framtíðarinnar. Bíll sem er hannaður fyrir ökumanninn og þannig minna gert úr sjálfstæðri aksturstækni í staðinn, PB 18 með hátækni farþegarými sem við mátti búast frá Audi. Er þetta fyrirheit um nýjan R8? Þeir hjá Audi hafa verið nokkuð góðir í að breyta hugmyndum í alvöru bíla undanfarið.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.