*

Bílar 13. mars 2019

Hugmyndabíll frá Nissan

Nissan segir næstu kynslóð e-Power tvinntækninnar mun öflugri en þá sem nú er í notkun.

Róbert Róbertsson

Nissan kynnti hugmyndabílinn IMQ á bílasýningunni í Genf í Sviss. IMQ er rafknúinn jepplingur með aldrifi og búinn verður nýrri útfærslu á tvinntækni. Tæknina kallar Nissan „e-Power“ sem fyrirtækið áætlar að innleiða á Evrópumarkað árið 2022.

Tvinntækni IMQ byggir að stærstum hluta á raftækni Nissan Leaf þar sem rafmótor knýr bílinn með orku af rafhlöðu. Tækni IMQ er frábrugðin Leaf að því leyti að í stað þess að stinga IMQ í samband við hleðslustöð til að hlaða rafhlöðu bílsins sér lítil og hljóðlát bensínvél í hlutverki rafals um hleðsluna en er ekki tengd sjálfri aflrás til hjólanna.

IMQ verður því alfarið knúinn áfram af rafmótor og verður því upplifun af akstri að mörgu leyti áþekk akstri Leaf þar sem mikil snerpa og góð hljóðvist eru ríkjandi. Ákveðin útfærsla e-Power tækni Nissan er nú þegar í Nissan Note á Japansmarkaði sem er einn söluhæsti smábíllinn í Japan. Næsta kynslóð tækninnar, mun öflugri en sú sem er í nú í notkun, er að sögn Nissan væntanleg í mest seldu bílgerðir merkisins á Evrópumarkað.

Nissan IMQ er straumlínulagaður aldrifinn jepplingur, sem er 4558 mm að lengd og 1940 mm á breidd. Hæð hans er 1560 mm og sýndi Nissan bílinn á 22“ felgum í Genf. Segja má að IMQ sameini helstu kosti rafbílsins Leaf og jepplingsins Qashqai. IMQ verður búinn nýjustu tækni Leaf, þar á meðal bílastæðislögn, ProPilot og öðrum lausnum á sviði þæginda og öryggis auk sjálfsaksturstækninnar „Seamless Autonomous Mobility“ sem gerir ekki kröfu um aðstoð ökumanns við aksturinn og Nissan hefur þegar kynnt í hugmyndabílunum IMx og Ids.