*

Bílar 19. ágúst 2016

Hugmyndabíll með vængjahurðum

Nýjasti hugmyndabíll Mercedes-Benz er lúxusbíllinn Vision Mercedes-Maybach 6 sem frumsýndur verður um helgina.

Mikil eftirvænting ríkir eftir frumsýningu á nýjasta hugmyndabíl Mercedes-Benz en um er að ræða lúxusbílinn Vision Mercedes-Maybach 6 sem þýski lúxusbílaframleiðandinn ætlar að frumsýna á Pebble Beach bílasýningunni í Bandaríkjunum um helgina.

Bíllinn er framúrstefnulegur en glæsilegur í hönnun með óvenju löngu húddi, vængjahurðum og sportlegum línum. Innanrými bílsins verður mjög nýstárlegt og tæknilegt. Ekki er vitað hvernig vélar verða í boði í bílnum né raunar nokkuð annað og menn verða að bíða eftir frumsýningunni.

Næsta víst má telja að hann fái einhverja aflmikla vél í vopnabúrið. Svo er raunar óvíst hvort bíllinn fari nokkurntíma í framleiðslu þar sem um er að ræða hugmyndabíl. En hann mun alla vega fá verðskuldaða athygli eins og síðustu hugmyndabílar frá Mercedes-Benz hafa raunar fengið.