*

Menning & listir 10. nóvember 2016

Hugmyndin kviknaði við sundlaugarbakkann

Þorvaldur Davíð, ásamt hljómsveitinni Skafrenningunum, gefur út djassaða jólaplötu sem ber nafnið Jólin! Það hlakka allir til nema ég, fyrir jólin.

Pétur Gunnarsson

Þorvaldur Davíð Kristjánsson er vel kunnugur flestum Íslendingum. Hann hefur leikið ófáar persónur í kvikmyndum, leikritum og sjónvarpsþáttum, talað inn á teiknimyndir, en nú stefnir hann að því að gefa út jólaplötu, með nýrri hljómsveit sem kallar sig Skafrenningana. Platan ber heitið Jólin! Það hlakka allir til nema ég.

Í hljómsveitinni Skafrenningunum eru ásamt Þorvaldi Davíð, Ari Bragi Kárason trompetleikari, Kristófer Rodriguez trommari, Tómas Jónsson á píanó og svo spilar Einar Scheving á trommur á nokkrum lögum á plötunni.

Það skapaðist tímarúm vegna frestunar á upptöku kvikmyndar

„Hugmyndin fæddist við sundlaugarbakkann á Ítalíu. Þar vorum ég og Birgir Steinn vinur minn, kontrabassaleikari, tveir slakir að söngla lög og fengum þessa hugmynd. Svo ákváðum við að hóa saman nokkrum frábærum hljóðfæraleikurum. Þetta er alveg rosalega fínt teymi,“ segir Þorvaldur Davíð, um tilurð fyrstu jólaplötunnar sem hann tekur þátt í að gera.

Upptaka og útgáfa plötunnar raungerðist einnig vegna þess að Þorvaldur var nýlokinn við upptökur á tveimur kvikmyndum hér á landi, kvikmyndunum Ég man þig og Svaninum. „Ég var að klára tvær myndir á þessu ári hér heima. Við erum að ljúka við Ég man þig, í nóvember, sem er byggð á bók eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Ég leik eitt af aðalhlutverkunum í þeirri mynd, ásamt Jóhannesi Hauki, Önnu Gunndísi og Söru Dögg og Ágústu Evu. Óskar Þór Axelsson, sem leikstýrði okkur í Svartur á leik, leikstýrir einnig Ég man þig. Ég var einnig að klára Svaninn sem er kvikmynd, byggð á bók Guðbergs Bergsonar, sem Ásta Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir. Við vorum úti á landi í sumar að taka hana upp,“ segir Þorvaldur Davíð. En svo frestuðust tökur á þriðju myndinni sem átti að taka upp á árinu svo að þeir Birgir Steinn ákváðu að slá til og taka upp jólaplötu.

„Þetta er fyrst og fremst gert vegna þess að mér þykir þetta gaman“

Þegar Þorvaldur Davíð er spurður út í það hvort söngurinn sé það sem koma skal, þá svarar hann neitandi, en bætir þó við að það þurfi að sjá til hvernig þetta verkefni þróast. „Þetta er fyrst og fremst gert vegna þess að mér þykir þetta gaman. Ég held að það sé ekki að ástæðulausu að undir hatt sviðslistar séu þrjár greinar: leiklist, dans og söngur. Þessi listform snerta hvert annað á ljósan og óljósan hátt. Þessi gerð af tónlist sem við erum að gera, og þessi stíll sem ég er að einbeita mér að, þegar ég er að syngja á þessari plötu og koma fram, felur ákveðna leiklist í sér. Ég lít á þetta sem einhvers konar annað sjálf.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiblaði Viðskiptablaðsins, Jólahandbókinni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: djass  • jólaplata  • Jólin  • Þorvaldur Davíð