*

Bílar 11. júlí 2013

Hundrað Benzar hafa selst á árinu

Það sem af er ári hafa Íslendingar keypt um hundrað nýja Mercedes-Benz bíla, sem er 45% aukning frá sama tíma í fyrra.

Það sem af er ári hafa selstt um eitt hundrað Mercedes-Benz fólksbifreiðar, sem er 45% aukning frá sama tímabili í fyrra, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Bílumboðinu Öskju.

Bílasala á fyrri hluta ársins 2013 hefur verið með ágætum. Alls hafa verið skráðir um 5.000 nýjar fólksbifreiðar á árinu, sem þó er er um 1% minna en í fyrra. Á árinu 2012 voru alls skráðar um 8.000 nýjar bifreiðar en fyrstu mánuðir ársins fela í sér umtalsverða sölu til bílaleiga.

Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Trausta Ólafssyni, framkvæmdastjóra Öskju, að söluaukningin á Mercedes-Bens bílum sé mjög ánægjuleg, en vissulega vilji hann sjá enn meiri sölu á komandi mánuðum. Hann segir sölu atvinnubíla Mercedes-Benz einnig hafa gengið mjög vel.

Að hans sögn hafa viðskiptavinir verið að sækja í sparneytna, örugga bíla og að Mercedes-Benz hafi náð mjög langt í að minnka útblástur og þar með lækka eldsneytiseyðslu.

Nefnir hann M-Class sem dæmi, en milli kynslóða hefur eyðsla jeppans minnkað um 25-30% og eyðir hann um 7-8 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri. Aðrir vinsælir Mercedes-Benz bílar eru A-Class, sem valinn var Bíll ársins 2013 af íslenskum bílablaðamönnum, B-Class og sportjeppinn GLK.

Mercedes-Benz setti enn eitt sölumetið á heimsvísu og seldi fleiri bíla á fyrri helmingi ársins 2013 en áður á sex mánaða tímabili í 127 ára sögu fyrirtækisins. Alls seldi Mercedes-Benz 694.433 bíla um heim allan á fyrstu sex mánuðum ársins sem er 6,4% aukning frá sama tímabili í fyrra. Mesta söluaukningin var í Evrópu og Bandaríkjunum.

Stikkorð: Askja  • Mercedes-Benz  • M-Class