*

Hitt og þetta 13. september 2013

Hundrað milljarða króna tap vegna föstudagsins þrettánda

Hjátrú er ekkert grín en dagurinn í dag hefur áhrif á milljónir manna.

Margir eru eflaust uggandi í dag en fyrir ykkur, sem hafið ekki litið á dagatalið, þá er föstudagurinn þrettándi í dag.

Enginn veit í raun hvers vegna föstudagurinn þrettándi telst óhappadagur. Helsta ástæðan kann að vera sú að bæði talan þrettán og föstudagur teljast óhappa. Þetta er þó ekki algilt vegna þess að í spænskumælandi löndum óttast fólk þriðjudaginn þrettánda en hann kallast Martes Treces og þykir hinn óvandaðasti. 

Samkvæmt tölum frá Stress Management Center og Phobia Institute í Asheville í Norður-Karólínu hefur föstudagurinn þrettándi áhrif á daglegt líf 17 til 21 milljón manna. Vegna þessa fjölda telst föstudagurinn þrettándi sá dagur sem flestir óttast í Bandaríkjunum. Sumir eru svo óttaslegnir að þeir fara ekki í vinnuna, fljúga ekki og fara jafnvel ekki fram úr rúminu. Talið er að tapið sé 800 til 900 milljónir dala eða rúmlega 100 milljarðar króna vegna þessarar hjátrúar.