*

Tölvur & tækni 21. september 2015

Hundruð Apple-smáforrita sýkt

Komið hefur í ljós að tölvuvírus frá Kína sýkti hundruð smáforrita sem var að finna í App Store.

Apple hefur gripið til aðgerða til að hreinsa tölvuvírus úr App Store. Tölvuvírusinn, sem heitir XcodeGhost, er að finna í hundruðum smáforrita. Þetta er fyrsta stóra tölvuárásin á App Store, en áður en XcodeGhost uppgötvaðist var bara vitað um fimm tilfelli þar sem sýkt forrit var að finna í App Store. Reuters greinir frá þessu.

Xcode er forrit sem notaður er af þeim sem búa til smáforrit fyrir iPad og iPhone. Vírusinn var að finna í falsaðri útgáfu af Xcode. Talsmaður Apple vildi í samtali við Reuters ekki gefa upp hvernig notendur iPad og iPhone gætu vitað hvort símar þeirra væru sýktir.

Starfsmaður tölvuöryggisfyrirtækisins Palo Alto Networks segir ekki vera vitað um nein tilfelli þar sem vírusinn hafi valdið usla eða verið notaður til að stela gögnum. Engu að síður væri um ansi stór tíðindi að ræða þar sem þetta sýni að tölvuþrjótar gætu sýkt App Store með því að koma vírusum fyrir í smáforritum sem væru metin hrein af Apple. Aðrir tölvuhakkarar gætu nú gengið í skarðið og notað þessa leið til að sýkja fleiri smáforrit.

Allt bendir til þess að XcodeGhost eigi rætur sínar að rekja til Kína.

Stikkorð: Apple  • Tölvuvírus