*

Menning & listir 16. nóvember 2014

Hundruð tónleika á fimm dögum

Áætlað er að um 9.000 manns hafi sótt iceland Airwaves hátíðina síðustu helgi.

Kári Finnsson

Margt hefur breyst síðan fyrsta Airwaves-hátíðin var haldin í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli haustið 1999 en hátíðinni lauk síðastliðinn sunnudag með kröftugum tónleikum bandarísku hljómsveitarinnar Flaming Lips í Vodafone-höllinni. Samkvæmt áætlun hátíðarinnar er ráðgert að um 9.000 manns hafi sótt hátíðina þetta árið en af þeim voru 5.000 gestir erlendir og 4.000 íslenskir. Sókn erlendra gesta hefur verið töluverð á síðustu árum en þeir tóku fram úr þeim íslensku í fyrsta skiptið árið 2012. Þá voru þeir samtals 4.076 á móti 3.467 innlendum.

Hátíðin er því býsna umfangsmikil en í formlegri dagskrá hennar spiluðu 219 listamenn á 250 tónleikum á þrettán tónleikastöðum víðs vegar um borgina. Séu Off-venue tónleikar hátíðarinnar taldir með þá margfaldast sú tala en skipuleggjendur hátíðarinnar áætla að um 650 tónleikar hafi verið haldnir á um fimmtíu börum, veitingahúsum og verslunum í miðbæ Reykjavíkur meðan á hátíðinni stóð.

Samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum hátíðarinnar voru um 219 hótelherbergi bókuð í Reykjavík fyrir erlenda tónlistarmenn, blaðamenn og aðra tengda tónlistariðnaðinum fyrir hátíðina. Ofan á það bætist hótelgisting þeirra erlendu gesta sem sóttu Airwaves-hátíðina þetta árið en samkvæmt könnun Útón um hátíðina frá árinu 2012 gistir hver gestur að meðaltali 6,7 nætur á hóteli í dvöl sinni á Íslandi og um 86% allra erlendu gesta hátíðarinnar dvelja á hótelum. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Iceland Airwaves  • Útón