*

Híbýli 3. nóvember 2020

Þriggja milljarða villa Epstein rifin

Í stað 22 milljón dala glæsivillu barnaníðingsins Jeffrey Epstein kemur annað 1.300 fermetra hús. Kaupandinn fékk húsið á afslætti.

Söluferli á glæsivillu barnaníðingsins Jeffrey Epstein á Palm Beach lýkur væntanlega í næsta mánuði en það er fasteignajöfurinn Todd Michael Glaser sem stefnir á að kaupa hana, rífa og byggja aðra svipað stóra í staðinn.

Hús Epstein var sett í sölu á tæplega 22 milljónir dala í júlí síðastliðnum, eða sem samsvarar um 3.1 milljarði íslenskra króna, en Glaser segist hafa fengið hana á afslætti þó hann vilji ekki gefa upp heildarkaupverðið.

Heimildarmaður WSJ segir að hann hafi fengið húsið, sem er í svokölluðum Vestur-Indíum stíl á 18 milljónir dala, sem samsvarar um 2,5 milljörðum íslenskra króna, en nýja húsið sem rís í þess stað og verður svipað stórt verður í Art Moderna stíl.

Epstein keypti húsið á 2,5 milljónir dala árið 1990, en það er ekki langt frá einkaklúbbi Donald Trump Bandaríkjaforseti og Everglades golfvellinum. Húsinu, sem er um 1.300 fermetrar með sex svefnherbergjum, fylgir 52 metra strandlengja og útsýni yfir Tarpon og Everglades eyjarnar.

Samkvæmt saksóknurum í dómsmáli Epstein er talið að húsið hafi leikið aðalhlutverki í kerfisbundnu barnaníði Epstein, en þangað dró hann fjölda ungra stúlkna til að stunda með sér ýmis konar kynferðislegar athafnir. Auk glæsivillunnar er íbúð Epstein í New York enn til sölu en seljendur vilja fá 88 milljón dala fyrir hana, eða sem samsvarar 12,4 milljörðum íslenskra króna.

Stikkorð: Jeffrey Epstein  • glæsivilla