*

Tíska og hönnun 4. september 2013

Hús í Brooklyn frá 1826

Þegar húsið, sem nú er til sölu í Brooklyn Heights, var byggt ráfuðu kýr um engin og næstu nágrannar voru tré.

Gullfallegt hús við Willow götu í Brooklyn Heights er til sölu. Það væri svo sem engin stórfrétt en þegar litið er á byggingarárið þá kemur kannski skýringin á því hvers vegna The New York Times fjallar um söluna á vefsíðu sinni.

Húsið var byggt árið 1826 þegar Brooklyn Heights var landbúnaðarland. Bátsferð frá Manhattan yfir til Brooklyn kostaði 12 cent en það var ódýrara að fara með árabát, sú ferð kostaði aðeins 5 cent. 

Húsinu fygldu útihús og hesthús en í dag stendur það í húsalengju. Búið er að gera húsið upp og þykir það hafa tekist vel. Fimm baðherbergi eru í húsinu og upp á 200 ára gamlan múrsteinsvegg í fjölskylduherbergi hússins er búið að hengja flatskjá . Búið er skipta um þak á húsinu, rafmagn og pípulagnir. Bitar í loftinu á efstu hæðinni eru upprunalegir og í húsinu eru sjö arnar úr belgískum marmara.

Framhliðin er blá og litatónninn er svokallaður Benjamin Moore blue, Nantucket Fog, sem húsafriðunarnefnd hefur lagt blessun sína yfir. Roberta Fisher, eigandi hússins, segist hafa viljað varðveita upprunalegt útlit hússins en um leið breyta því þannig að þægilegt væri að búa þar með fjölskyldu.

Húsið var byggt af Robert Speir, innflytjenda frá Glasgow sem þjáðist af heimþrá þar sem hann bjó á Manhattan. Honum fannst Manhattan of mikil stórborg svo hann flutti fjölskyldu sína yfir til Brooklyn árið 1820 og sex árum síðar hafði hann byggt draumahúsið. Brown Harris Stevens sér um söluna. 

 

 

 

 

Stikkorð: Fasteignir  • Brooklyn Heights