*

Tíska og hönnun 17. september 2013

Húsið sem hækkaði úr 18 þúsund dölum í 5 milljónir dala

Hús, sem eitt sinn var í svo slæmu hverfi að fela þurfti barn inni í fataskáp til að forða því frá kúlnahríð, er nú til sölu fyrir fimm milljónir dala.

Í dag er hús á 94. stræti á milli Central Park og Columbus Avenue til sölu fyrir fimm milljónir dala eða 607 milljónir króna.

Saga hússins þykir merkileg en rithöfundurinn Peggy Mann Houlton keypti húsið árið 1960 fyrir 18 þúsund dali eða rúmlega tvær milljónir króna.

Í þá daga þótti hverfið hættulegt og þegar Peggy keypti húsið voru för eftir tvær byssukúlur framan á húsinnu. Hið þriðja bættist við þegar skotið var á húsið í uppþotum í götunni þegar Peggy var nýbúin að eignast dóttur sína, hana Jennifer. Hún faldi barnið í fataskápnum til að forða henni undan kúlnahríðinni.

Árið 1966 skrifaði Peggy Mann bókina The Street of the Flower Boxes sem fjallaði um mikilvægi þess að fegra umhverfið og gera það betra. Bókin sló í gegn og sjónvarpsmynd var gerð eftir bókinni sem vann Peabody verðlaunin.

Þegar Peggy Mann lést árið 1990 var enginn eftir til að sjá um manninn hennar sem var þá orðinn mikill sjúklingur. Fjölskyldan átti ekki fyrir heimahjúkrun en þau áttu þó húsið. Svo herbergi voru leigð í skiptum fyrir heimahjúkrun. Hann lést nokkrum árum eftir að kona hans dó.

Í dag þykir hverfið mjög eftirsóknarvert á Manhattan og síðustu fimmtán árin hafa dætur hjónanna leigt húsið út fyrir fjórtán þúsund dali á mánuði. Það er nú til sölu eins og áður sagði en fjallað er nánar um sögu hússins í grein í The New York Times

 

Stikkorð: New York  • Manhattan