*

Jólin 12. nóvember 2016

Húsrýmið dugði ekki lengur

Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis, á margar góðar minningar frá jólum í Bolungarvík.

Meiri fábreytni var í kringum allan jólaundirbúning á þessum árum í Bolungarvík heldur en síðar hefur tíðkast í landinu. Þegar maður horfir til baka þá fannst okkur börnunum í bænum stórkostlegt ævintýri að sjá leikföngin og eitt og annað sem hugurinn girntist birtast í hillum verslananna,“ segir Einar.

„Hápunkturinn á jólum hjá mér eins og flestum öðrum var auðvitað aðfangadagur, það má segja að þar hafi svona í senn svifið yfir mikil spenna í hugum okkar barnanna, en líka ákveðin ró sem ríkti á heimili foreldra minna.“

Foreldrar Einars voru þau Guðfinnur Einarsson, útgerðarmaður og framkvæmdastjóri, og María K. Haraldsdóttir húsfreyja.

„Á þeim tíma sungu þau bæði í kirkjukór Hólskirkju og fóru því oft í messu. Á aðfangadag þá leið tíminn auðvitað ákaflega hægt í hugum okkar barnanna. Við biðum eftir því að helgi jólanna rynni upp og að við gætum farið að snúa okkur að því sem við höfðum mestan áhuga á, sem var að taka upp pakkana. En áður en til þess kom þá fór fjölskyldan öll í sínu fínasta pússi í kirkjuna á hólnum í Bolungarvík,“ segir Einar.

„Það var hins vegar ekki alltaf auðvelt verk, hóllinn er brattur og bíllinn ekki sérlega góður til vetraraksturs. Þegar nálgaðist hólinn, þá gaf pabbi hraustlega í og þó það hafi nú yfirleitt tekist, þurfti stundum að spóla sig upp síðasta hluta brekkunnar.“

Fjölskylda Einars í Bolungarvík er mjög fjölmenn og mikill samgangur á milli, enda unnu mörg þeirra fyrir sama fyrirtækið, útgerð Einars Guðfinnssonar, afa Einars og nafna.

„Pabbi og systkini hans sem bjuggu í Bolungarvík voru alls sex, og var gott samband á milli allra, bæði þeirra systkina, maka þeirra og barna. Á jóladag komum við til skiptis saman á heimilum systkina pabba og dönsuðum í kringum jólatréð og sungum og áttum góðar stundir,“ segir Einar.

„Smám saman þegar fóru að bætast í hópinn barnabörn, þá dugði ekki lengur húsrýmið, þó að margir bjuggu í góðum húsum, til að taka á móti öllum þessa mikla skara sem þarna var orðinn til. Þá var á einhverjum tímapunkti einfaldlega ákveðið að færa þetta jólahald fjölskyldunnar niður í mötuneyti frystihússins, Íshúsfélags Bolungarvíkur.“

Einar segir að það hafi verið ógleymanlegt líka, enda var dansað þar í allt að sex hringjum utan um jólatréð sem starfsfólk frystihússins hafði notið á aðventunni.

„Jólatréð var dregið fram á mitt gólf og við sungum jólalögin en í fjölskyldunni var mikið af músíkölsku fólki, sem líka spilar á hljóðfæri, þannig að við áttum þarna mjög skemmtilegan tíma. Ekki síst veit ég að barnabörnin, yngsta fólkið í fjölskyldunni, geyma þetta í sínu hugskoti,“ segir Einar.

Nánar má lesa um málið í Jólagjafahandbókinni sem fylgdi með Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.